154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:02]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við munum hérna síðar í dag greiða atkvæði um tillögur frá ríkisstjórninni sem draga í rauninni úr skattaívilnun sem snýr að vaxtagreiðslum þar sem 700 millj. kr. aðhald er boðað fyrir tekjuminnsta og eignaminnsta fólkið í landinu. En í því samhengi er ekki vakin athygli á því að fyrir nokkrum árum síðan samþykkti þessi ríkisstjórn tillögur sem gerði vexti, mjög háa vexti, frádráttarbæra til að mynda frá veiðigjaldi. Sú skattaívilnun virðist vera í lagi þessa dagana en ekki skattaívilnun fyrir tekjuminnsta og eignaminnsta fólkinu í landinu. Afurðaverð hefur verið hátt og það hefur gengið vel í sjávarútvegi. Þetta er jákvætt. Við eigum öll að græða á þessu sem samfélag en á erfiðum tímum þegar talað er um erfiðar ákvarðanir sem verið er að taka hér inni í nafni aðhalds, þá veltir maður fyrir sér: Af hverju má ekki ræða það að sú atvinnugrein sem skilar sögulega mikilli arðsemi á þessu og næsta ári greiði meira til samfélagsins svo að við getum stutt við þau sem þurfa?