154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:53]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða 8,9 millj. kr. hækkun en í nefndarálitinu er ekki gert ráð fyrir því að þetta fjármagn fari til Samkeppniseftirlitsins heldur er eingöngu gert ráð fyrir hækkun á fjárframlagi til Neytendastofu. Við höfum örugglega öll tekið eftir því undanfarna mánuði að það er einhvers konar aðför gegn Samkeppniseftirlitinu. Það er verið að gera þeim erfitt fyrir að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem eftirlitsstofnun, það er ekki verið að veita þeim nógu mikið fjármagn. Ég átta mig ekki á því hvernig Samkeppniseftirlitið á að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu þegar það er verið að veikja stofnunina og þau eru bara, afsakið slettuna, virðulegi forseti, að díla við rosalega mikla manneklu og fjárskort og þetta kemur náttúrlega niður á samkeppnismarkaðnum. Virk og góð og heilbrigð samkeppni skilar sér í formi efnahagslegs ávinnings fyrir samfélagið.