154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

hækkun framlaga til baráttu gegn fíknisjúkdómum.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og get nú byrjað á því að nefna að þau samtök og þau verkefni sem hv. þingmaður nefndi eru gríðarlega mikilvæg í okkar samfélagi enda styðjum við við þau bæði hér í þessum þingsal, við sem einstaklingar og það gera fyrirtæki sömuleiðis. Það verkefni sem hv. þingmaður nefnir er verkefni samfélagsins alls. Við hins vegar stýrum fjárútlátum, það koma allar tekjur inn til ríkissjóðs og við útdeilum þeim síðan með ákveðnum hætti. Við erum ekki með nema í einstaka undantekningartilfellum markaðar tekjur. Við höfum verið að vinna að nánari yfirsýn yfir það hversu mikill vandi þetta er í okkar samfélagi og hann fer vaxandi og það mun þurfa mikið til að bæði ráðast að honum og vinna með það. En við þurfum líka að hafa kjark til að huga að því með hvaða hætti það er best gert. Er sú nálgun og þær leiðir sem við höfum í dag þær bestu? Það að krónutöluhækkanir fylgi verðbólgumarkmiðum, rétt yfir það, segir ekkert til um getu okkar til að takast á við þessi verkefni.

Stutta svarið er að við erum ekki með markaðar tekjur og við ráðstöfum ekki með beinum hætti ákveðnum gjöldum í ákveðin verkefni. En það er sameiginlegt verkefni fyrir okkur hér og fjárveitingavaldið að forgangsraða þeim fjármunum sem koma inn til ríkisins í verkefni eftir þörfum og við höfum forgangsraðað þeim í þessi verkefni með mjög breiðum hætti, þ.e. til ýmissa samtaka. Við viljum grípa það frumkvæði sem einstaklingar og samtök sýna í því að geta gefið af sér að nýju (Forseti hringir.) og við þurfum sannarlega á því að halda og ég lýsi mig reiðubúna til að styðja við það.