154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

nýr meiri hluti til að takast á við verkefnin í samfélaginu.

[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að hæstv. ráðherra getur ekki svarað einfaldri spurningu. Ég gat ekki skilið ráðherra öðruvísi en að hann telji bara hv. þm. Jón Gunnarsson fara með vitleysu, vera að gaspra og fara með fleipur. Það er neyðarástand í landinu þegar kemur að orku, ekki síst raforku. Af hverju erum við að setja hér neyðarlög? Af því að ríkisstjórnin er ekki búin að standa sig í stykkinu. Hefur ráðherra staðið sig í stykkinu, m.a. við að einfalda kerfið, einfalda lögin til þess að flýta fyrir orkuskiptum og orkuöflun, til þess að slá skjaldborg utan um heimilin? Nei, öllum ávinningnum til að mynda varðandi rafbílavæðinguna erum við búin að eyða. Loðnuverksmiðjurnar og fleiri eru ekki að fá orku heldur þurfa að brenna dísilolíu. Hvers konar er þetta? Það versta við þetta svar er að hann veit ekki hver staðan er. Hann skynjar ekki hver staðan er. Eftir sex ár í ríkisstjórn þá skynjar hæstv. ráðherra ekki alvarleika málsins, þann alvarleika sem ég segi að þungavigtarþingmaður innan Sjálfstæðisflokksins gerir sér grein fyrir (Forseti hringir.) og hann segir að hann treysti ekki þessari ríkisstjórn til að klára stóru málin. Þetta er einföld spurning til ráðherra: (Forseti hringir.) Treystir ráðherra sér til að halda áfram með málin, vill hann mynda nýjan meiri hluta til þess að ýta málum áfram í þágu heimilanna og í þágu fyrirtækjanna í landinu?