154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu, hinum árlega bandormi, eru lagðar til breytingar á ýmsum lagaákvæðum til samræmis við stefnumótun í ríkisfjármálum og með tilliti til verðlagsþróunar. Að meginstefnu er um að ræða breytingar á sköttum og gjöldum, en einnig er fjallað um hvaða tímabundnu úrræði og tímabundnu bráðabirgðaheimildir í lögum verða framlengdar um ár.

Sem kennari lærði ég að byrja á jákvæðu hlutunum. Alltaf skal þakka það sem vel er gert. Þannig er það jákvætt að meiri hlutinn leggi til 1% yfirfærslu á tekjum til sveitarfélaga til að fjármagna lögbundna þjónustu þeirra við fatlað fólk.   Sveitarfélögin hafa lengi átt erfitt með að fjármagna þessa þjónustu þannig að þetta er löngu tímabær aðgerð sem ber að fagna.

Ég er einnig ánægð með að sóknargjöld verði ekki verið lækkuð frekar en orðið er. Sem landsbyggðarþingmaður geri ég mér sífellt betur grein fyrir mikilvægi þeirrar þjónustu sem kirkjan veitir, ekki hvað síst á erfiðum tímum í lífi fólks, bæði í formi félagsstarfs, sálgæslu og í formi hjálparstarfs. Það er engin spurning að þörfin fyrir t.d. matargjafir mun aukast á næstu mánuðum eftir því sem herðist að heimilunum. Þar hefur kirkjan aðstoðað fleiri en við gerum okkur almennt grein fyrir.   Alveg burtséð frá trú fólks þá veitir kirkjan alls kyns hjálp til allra þeirra sem á þurfa að halda, bæði í formi matargjafa og ráðgjafar. Opinberir aðilar eru ekki að fara að fylla það skarð ef kirkjan þarf að draga saman seglin. Hún er afar mikilvæg samfélagsleg stofnun á landsbyggðinni. Það sama á við á höfuðborgarsvæðinu, þó við verðum bara ekki jafn vör við það vegna fjölmennis enda vinnur hún almennt störf sín í hljóði.

Þegar við ræðum ríkisfjármál er nauðsynlegt að hafa í huga efnahagsástand í þjóðfélaginu. Regluleg útgjöld heimilanna hafa aukist verulega undanfarin misseri. Verð á nauðsynjavörum hefur hækkað statt og stöðugt og stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa stóraukið mánaðarlega greiðslubyrði hjá þeim sem tóku óverðtryggð húsnæðislán og reyndar líka hinna sem tóku verðtryggð lán. Þá eru vextir að losna á óverðtryggðum lánum hjá þeim sem enn eru í skjóli, með tilheyrandi afleiðingum fyrir heimilisbókhald þeirra. Fram undan eru kjarasamningsviðræður og það er afar mikilvægt að forsendur þeirra samninga haldi.   Því hefur t.d. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kallað eftir því að ríki, sveitarfélög, verslun og þjónusta skuldbindi sig um að hækka ekki gjaldskrár umfram 2,5% á næsta ári.

Það er í þessu samhengi sem við þurfum að ræða áform ríkisstjórnarinnar um að hækka skatta og gjöld. Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka krónutöluskatta um 3,5% milli ára. Hækkunin er rökstudd með vísan til samræmis við almennar verðlagsbreytingar í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024. Þessar skattahækkanir leggjast jafnt á alla, óháð efnahag, og bitna því hlutfallslega meira á þeim efnaminni. Tekjulægsta fólkið greiðir hærra hlutfall af sínum ráðstöfunartekjum í slíka skatta og ver hæstu hlutfalli tekna sinna til nauðsynja.   Auk þess má leiða að því líkur að krónutöluhækkanir geti haft ólík áhrif á karla og konur, enda eru konur að meðaltali með lægri tekjur en karlar og þær komi því að meðaltali hlutfallslega verr niður á konum en körlum. Vert er að hafa í huga að krónutöluskattar hafa alls ekki alltaf fylgt verðlagi.

Flestir hagsmunaaðilar, svo sem heildarsamtök launþega og vinnuveitenda og Öryrkjabandalag Íslands, eru sammála um að hækkun krónutöluskatta um 7,7% um síðustu áramót hafi aðeins aukið verðbólguþrýsting. Í aðdraganda komandi kjarasamningsviðræðna þegar mikilvægt er að ríkið setji gott fordæmi leggur 2. minni hluti til að krónutöluskattar taki ekki breytingum næstu áramót.

Ekki stendur til að gera breytingar á fjárhæðum eða viðmiðum vaxtabóta milli ára þrátt fyrir að vaxtakostnaður heimilanna sé í hæstu hæðum. Fyrirsjáanlegt er að fjöldi fólks muni fá lægri vaxtabætur á næsta ári eða jafnvel detta út úr vaxtabótakerfinu. Ein algengasta skýring þess að fólk fái greiddar minni vaxtabætur á milli ára er hækkun fasteignamats. Það eitt og sér getur þýtt að fólk fái minni vaxtabætur, jafnvel þótt tekjur og afborganir haldast óbreyttar. Árið 2023 hækkaði heildarmat fasteigna á Íslandi um 19,9% frá árinu áður og fasteignamat fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir 11,7% hækkun.   Þessi hækkun samsvarar 31,6% hækkun á tveimur árum. Hærra fasteignamat felur hvorki í sér lægri afborganir af húsnæðislánum né auknar mánaðarlegar tekjur. Tekið er undir sjónarmið ÖBÍ um að mikilvægt sé að eignamörk séu í takt við breyttar forsendur svo einstaklingar sem búa í eigin fasteign en standa höllum fæti fjárhagslega fái ekki skertar vaxtabætur sökum þenslu á húsnæðismarkaði. Þessi minni hluti tekur undir ábendingu ÖBÍ og leggur til að eignarskerðingarmörk vaxtabóta verði hækkuð um 12% milli ára.

Það er ótrúlegt að ríkisstjórnin sé enn við sama heygarðshornið og hún var árið 2022 þegar ég sendi fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn um áhrif hækkunar fasteignamats þrátt fyrir hve gríðarlega staðan hefur versnað síðan. Þá strax lá fyrir, samkvæmt svari ráðherra, að um 2.800 framteljendur myndu missa réttinn til vaxtabóta en núna eru þeir orðnir um 5.000 talsins. Það þýðir að um 5.000 fjölskyldur sem hefðu átt rétt á vaxtabótum áður en fasteignamat eigna þeirra hækkaði munu ekki eiga hann þó að aðstæður þeirra séu í raun verri en áður vegna hækkandi vöruverðs í blússandi verðbólgu og gríðarlegrar hækkunar vaxta.   Jafnframt kom fram í fyrrnefndu svari ráðherra að þá væri áætlað að allt að 90% þeirra sem þó fengju vaxtabætur myndu verða fyrir auknum skerðingum vegna hækkandi fasteignamats. Útlit er því fyrir að stuðningur ríkisins til fjölskyldna sem glíma við okurvexti fari gríðarlega mikið lækkandi milli ára.

Á sama tíma og húsnæðiskostnaður er hærri en nokkru sinni fyrr virðist ríkisstjórnin enn vera við sama heygarðshornið og hyggst ekki hækka skerðingarmörk vaxtabóta þrátt fyrir allar þessar gríðarlegu hækkanir.   Í svari sínu við skriflegri fyrirspurn minni kom fram hjá fjármálaráðherra að spenna væri mikil í þjóðarbúinu á alla mælikvarða, sem kallaði á aðhald á sviði peninga- og ríkisfjármála. Í svari ráðherra sagði orðrétt:

„Hækkun eignarskerðingarmarka myndi draga úr sjálfvirkri sveiflujöfnun kerfisins, þvert á hagstjórnarstefnu stjórnvalda, og myndi eingöngu gagnast íbúðareigendum, einkum þeim sem hafa orðið eignameiri vegna hækkunar íbúðaverðs.“

Svo mörg voru þau orð. Í svari fjármálaráðherra fannst honum einnig ástæða til að benda á það í þessu samhengi að fjárhagsstaða heimilanna hefði almennt styrkst síðustu ár þvert á tekjuhópa og að fjárhagsstaða fólks sem byggi í eigin húsnæði hefði styrkst sérstaklega vegna mikillar hækkunar húsnæðisverðs.  

Ríkisstjórnin virðist enn vera á þessari furðulegu skoðun þó að staðan hafi versnað til mikilla muna síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram fyrir rúmu ári síðan, a.m.k. ætlar hún ekkert að gera fyrir heimili í neyð. Þetta eru kaldar kveðjur til heimila landsins sem geta almennt ekki einu sinni losað þetta fé sitt þar sem fasteignamarkaðurinn er svo til botnfrosinn. Jú, fasteignaverðið hefur hækkar, en ekkert selst. Alveg séríslenskt eins og venjulega.   Tekjur hafa ekkert aukist hjá þessum heimilum en útgjöld þeirra hafa margfaldast á undanförnum mánuðum. Staðan er mun verri en hún var, en ekkert bólar á raunverulegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fólkið í landinu er verr statt en áður þrátt fyrir tölur á pappír sem engin áhrif hafa á getu þeirra til að standa undir mánaðarlegum útgjöldum, sem er það eina sem skiptir þau raunverulegu máli.  

Nú er það svo að ég vildi óska að ekki væri þörf á vaxtabótum. Ég tel að áherslan ætti að felast í því að koma í veg fyrir að bankarnir fái að blóðmjólka heimilin og græða stórkostlega á því, en ekki að ríkið komi með plástur í formi vaxtabóta og leggi út í kostnað til að bæta heimilunum skaðann sem bankarnir hafa valdið. Það er eitthvað verulega öfugsnúið við það. Bankarnir eiga sjálfir að greiða fyrir skaðann sem þeir hafa valdið, ekki skattgreiðendur.   Að því sögðu eru vaxtabætur nauðsynlegar til að bregðast við því ástandi sem nú ríkir. Áðurnefnt svar fjármálaráðherra byggir á vandræðalega röngum forsendum og vanþekkingu á nokkrum augljósum staðreyndum málsins eins og t.d. þeim að hækkun fasteignaverðs eykur ekki ráðstöfunarfé heimilanna, hækkun fasteignaverðs leiðir yfirleitt til aukinna útgjalda vegna hækkandi fasteignagjalda, þau heimili sem hafa tekið verðtryggð lán sjá höfuðstól lána sinna hækka alveg jafn hratt, ef ekki hraðar en fasteignaverðið, hækkun fasteignaverðs hefur engin áhrif á heimilisbókhaldið fyrr en fasteign er seld, en þá þarf líka í flestum tilfellum að kaupa aðra fasteign dýrara verði en annars, þannig að þegar upp er staðið er hagnaðurinn í raun takmarkaður.  

að er þyngra en tárum taki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skuli ekki sýna meiri skilning á stöðunni sem blasir við. 5.000 fjölskyldur sem hafa það lágar tekjur og skulda svo mikið að þær hefðu átt rétt á vaxtabótum áður en vextir fóru að hækka munu ekki fá þær þegar vextir hafa hækkað svo að skuldabyrði þeirra hefur aukist um tugi og yfirleitt hundruð þúsunda í hverjum mánuði, vegna þess að verðmat á íbúðum þeirra hefur hækkað á pappír þó að ráðstöfunartekjur þeirra séu þær sömu og áður. Að svipta þetta fólk vaxtabótum heitir einfaldlega að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Um það hljótum við öll að vera sammála, hvað svo sem okkur finnst um vaxtabætur að öðru leyti.  

Því legg ég til breytingu um að eignarskerðingamörk vaxtabóta hækki milli ára um 12%, en hvet ríkisstjórnina jafnframt til að gera raunverulegar breytingar þannig að ríkið þurfi ekki að beita björgunaraðgerðum sem þessum í efnahagsástandi sem hefur skapast vegna misráðinna aðgerða Seðlabankans í svokallaðri baráttu sinni við verðbólguna, þar sem hver mótsögnin rekur aðra, og vegna athafnaleysis ríkisstjórnarinnar.  

Einfaldasta leiðin er að lækka húsnæðiskostnað heimilanna, t.d. með því að setja þak á vextina við 4%. Þá myndu heimilin ná vopnum sínum og fá að blómstra. Vaxtabætur eru einnig varla upp í nös á ketti, en þær eru þó betra en ekki neitt, og í besta falli plástur á svöðusár.   Það má segja að fjármagnseigendur og fyrirtæki hafi hagnast mikið á árinu, enda kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti verði 18 milljarðar kr. vegna hærra vaxtastigs og meiri söluhagnaðar en gert hafði verið ráð fyrir. Einnig er gert ráð fyrir því að tekjuskattur lögaðila verði hækkaður um 1% og mun sú hækkun falla jafnt á öll hlutafélög og einkahlutafélög. Þessar breytingar eru gerðar sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr þenslu í hagkerfinu. En væri ekki betra að tengja þetta við fyrirtæki sem skila meiri hagnaði?  

Ég fór fram á að samhliða vinnu nefndarinnar í þessu máli myndi fjármálaráðuneytið reikna út hversu miklar tekjur ríkissjóður myndi fá ef tekjuskattur lögaðila yrði þrepaskiptur þannig að hann myndi hækka um 2% á fyrirtæki með skattstofn yfir 100 millj. kr. og 3% á fyrirtæki með skattstofn yfir 500 millj. kr. Í svari ráðuneytisins kom fram að nýjustu upplýsingar sem lægju fyrir um álagningu tekjuskatts á lögaðila væru frá árinu 2022 vegna rekstrarársins 2021 og að ef tekjuskattur lögaðila hefði við þá álagningu verið þrepaskiptur með þeim hætti sem hér er lýst hefðu tekjur ríkissjóðs af skattinum, að öðru óbreyttu, verið 8,6 milljörðum kr. meiri en raunin var eða 9%.   2. minni hluti leggur ekki til breytingu þess efnis en telur að stjórnvöld ættu að skoða þrepaskiptingu tekjuskatts lögaðila og greina nánar mögulegar útfærslur og áhrif þeirra.

Árið 2019 var smánarlega lágur bankaskattur upp á 0,376% lækkaður í 0,145%. Ástæða lækkunar var sögð vera til að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra. Auk þess var talið að þessi lækkun á bankaskatti myndi leiða til ódýrari lána til heimila og fyrirtækja — látum það síast aðeins inn. Það er nefnilega morgunljóst að þetta hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun og er hann svipaður nú og hann var árið 2018.   Bankarnir hafa undanfarin misseri skilað miklum hagnaði í skjóli fákeppni og hárra stýrivaxta. Það er kominn tími til að þeir skili samfélaginu til baka þó ekki væri nema hluta af þeim ágóða. Því er lagt til að bankaskatturinn verði hækkaður í 0,838% sem myndi auka tekjur ríkissjóðs um rúma 30 milljarða kr. á næsta ári. Þann tekjuauka yrði hægt að nýta til að draga úr hörðustu áhrifum verðbólgunnar á fátækt fólk og jafnframt draga úr skuldasöfnun ríkissjóðs. Til vara legg ég til að bankaskatturinn verði a.m.k. hækkaður í það sem hann var fyrir lækkun, 0,376%, enda hefur lækkun hans ekki skilað sér á nokkurn hátt til neytenda og við hljótum að geta komið í veg fyrir að kostnaðinum verði velt yfir á neytendur eins og margir óttast.   Við erum löggjafarvaldið og eigum ekki að láta stjórnast af ótta við fjármálakerfið.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að fé verði tekið úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstri hjúkrunarrýma. Í frumvarpinu sem hér um ræðir er það útfært með því að leggja til framlengingu á ákvæði til bráðabirgða sem hefur áður verið framlengt tíu sinnum. Í lögum um málefni aldraðra segir um Framkvæmdasjóð aldraðra:  

„Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala, að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar á slíku húsnæði og til viðhalds húsnæðis dagdvalar-, dvalar- og hjúkrunarheimila, auk annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.“

Það fer þvert gegn upphaflegum tilgangi framkvæmdasjóðsins að nýta fjármuni hans í rekstur hjúkrunarheimila en ekki raunverulegar framkvæmdir, uppbyggingu hjúkrunarheimila sem sannarlega er skortur á. Vegna þess leggur 2. minni hluti til að umrædd heimild verði felld brott.  

Sjaldan hefur verið erfiðara en nú að komast inn á húsnæðismarkað. Meðal þess sem stendur í vegi fyrir því eru stimpilgjöld. Þetta er ekkert annað en skattur á þá lífsnauðsyn sem íbúðarhúsnæði er. 2. minni hluti leggur því til að stimpilgjöld af íbúðarhúsnæði sem aflað er til eigin nota verði afnumin. Það er til þess fallið að auka hreyfanleika á húsnæðismarkaði. Jafnframt myndi það lækka þröskuldinn fyrir ungt fólk sem er að reyna að komast inn á húsnæðismarkað og bæta samkeppnisstöðu þeirra sem eru að reyna að koma þaki yfir höfuðið gagnvart fjárfestum sem stunda fasteignakaup í öðrum tilgangi en til eigin nota.  

Það er eins og enginn skilningur sé á því hjá ríkisstjórninni hversu erfið staðan er á heimilum sem eru undir meðaltekjum. Það má ekki gleymast að á þeim enda tekjustigans er fólk sem nú berst fyrir heimilum sínum. Undirrituð þekkir af eigin reynslu örvæntinguna sem fylgir yfirvofandi heimilismissi og finnur virkilega til með foreldrum í fjárhagserfiðleikum, sem nú reyna að setja upp gleðigrímu fyrir börnin sín um jólin. Það er því miður ekkert fyrir þetta fólk í þessu frumvarpi.   Þvert á móti munu þessar hækkanir gera þeim erfiðara fyrir. Þær fara auk þess beint í vísitöluna. Á sama tíma segist ríkisstjórnin vera að berjast gegn verðbólgunni, að það sé hennar stærsta markmið. Veruleikafirringin er algjör.

Svo verður ekki komist hjá því að nefna að fáránleikann í því að ríkisstjórnin sé að fara í aðgerðir til að auka framboð á húsnæðismarkaði, á meðan það er yfirlýst markmið Seðlabankans að stöðva allar framkvæmdir, enda markaðurinn botnfrosinn svo ekki sé tekið sterkar til orða. Það er ekki nema von að það gangi illa að vinna bug á verðbólgunni þegar allt rekst á annars horn.