154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[19:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Hvernig er þessi ríkisstjórn að takast á við efnahagsvandann í dag? Hvað hefur þessi ríkisstjórn verið að gera til að draga úr verðbólgu? Hvað hefur hún gert til að koma í veg fyrir það að fjölskyldur fari að missa heimili sín? Ég kem ekki auga á nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Hefur þessi ríkisstjórn litið til landanna í kringum okkur og reynt að bera sig saman við þær aðgerðir sem þar hafa verið hafðar í frammi, þar sem í raun og veru hefur gengið mörgum sinnum betur að ná niður verðbólgu heldur en hér og þar sem vaxtastigið er svona 50% lægra, í það minnsta, heldur en hér og jafnvel mun minna en það? Hér eru t.d. vextir á óverðtryggðu láni í Arion banka 11,38% á meðan Færeyingar, vinir okkar, greiða ríflega 4% í vexti.

Það er í rauninni sárara en tárum taki að þurfa að horfa upp á það hvernig hlutirnir eru í rauninni að þróast hér. Hvað gerðu Spánverjar til að reyna að draga úr verðbólgunni? Réðust þeir á samfélagið í heild sinni með alls konar álögum og aukasköttum? Nei, þeir gerðu það ekki. Þeir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð ásamt Seðlabanka Spánar til að koma í veg fyrir aukna þenslu út í efnahagskerfið hjá þeim til þess einmitt að draga úr verðbólgu og gera allt sem í þeirra valdi stæði til að sporna gegn því að hún myndi halda áfram að vaxa. Hvað gerðum við? Hvað gerði íslenska ríkisstjórnin hér? Jú, hún heldur sig við að koma með auknar álögur eins og t.d. um áramótin þar sem hún kemur með sínar frábæru álögur á allt hvað eina, hvort sem það er það sem við erum að borða eða álögur á bara allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þeir hafa verið duglegir að halda við og auka við þensluna sem mest þeir mega, í stað þess að líta til þess sem vel hefur verið gert í löndunum í kringum okkur sem hefur virkilega unnið á efnahagsvandanum og verðbólgunni, sem enginn slapp við reyndar. Spánverjar greiddu t.d. niður orkuverðið. Þeir greiddu með allri orku. Þeir stöðvuðu allar hækkanir á matvöru og nauðsynjavöru. Það var í engu sem þeir sendu boltann á almenning, ekki í neinu. Hér hins vegar þá er það eina sem þessi ríkisstjórn getur gert að taka almenning upp á hnakkadrambinu og reka honum á kjaftinn. Það er nákvæmlega það sem almenningur hefur þurft að þola hér skipti eftir skipti þegar við sitjum uppi með vanhæfa, algerlega vanhæfa ríkisstjórn. Núna um áramótin mun t.d. koma þessi árlega gjaldskrárhækkun, þar á meðal á áfengi. Þá mun gjaldskrárhækkun á áfengi koma áfengisgjaldinu í 26,3 milljarða kr., mun sem sagt hækka úr 25,2 milljörðum, um 1,2 milljarða kr.

Við í Flokki fólksins höfum ítrekað kallað eftir stuðningi við þá sem eru fárveikir af fíknisjúkdómi. Hvernig skyldi það nú hafa gengið? Framhaldssagan kemur bráðum vegna þess að nú ætla ég að lesa hérna upp úr breytingartillögu Flokks fólksins við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2023. Við förum inn í málefnasvið 25 sem er hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta. Þar erum við að kalla eftir að framlag úr ríkissjóði hækki um 400 millj. kr. Það er einmitt til SÁÁ. Hvers vegna skyldum við vilja hækka framlög til SÁÁ og Sjúkrahússins Vogs um 400 millj. kr.? Jú, það er vegna þess að á hverju einasta ári núna eru að deyja hátt í 100 einstaklingar úr fíknisjúkdómi og jú, það er vegna þess að það bíða hér á áttunda hundrað einstaklingar eftir sjúkrahúsvist á sjúkrahúsinu Vogi og jú, það er vegna þess að það vantar fjármagn til þess að geta rekið sjúkrahúsið Vog á því afli sem það raunverulega getur verið rekið. Það vantar fjármagn til að greiða laun. Það vantar fjármagn til að nýta að fullu þann húsakost og þau úrræði sem að hægt er að veita þessu veika fólki. En, nei, þið skuluð bara bíða lengur, og það sem meira er að tugir einstaklinga, fársjúkra einstaklinga, eru að deyja á þessum biðlista, deyja á biðlista eftir sjúkrahúshjálp, eftir læknishjálp. Hvernig í ósköpunum á maður ekki annað en skammast sín fyrir það að ætla í rauninni að láta sér detta í hug að kalla þetta réttarríki? Og hvernig í ósköpunum getur maður í rauninni annað en skammast sín fyrir það, þegar maður hugsar til þess að hér er verið að taka 26,3 milljarða í áfengisgjald, að vel innan við 2 milljarðar eru settir í hjálpina, í sjúkdóminn, til allra þeirra aðila sem eru að reyna að lækna og hjálpa? SÁÁ báðu um 520 millj. kr., það yrði að koma því inn í fjárlög. Hér erum við að tala um fjáraukalög. SÁÁ voru búin að fá loforð fyrir 120 millj. kr. Ég bíð náttúrlega spennt eftir því að þau fái það greitt út. Það vantar sem sagt 400 milljónir upp á það sem nauðsynlega þarf bara til að halda rekstrinum í jafnvægi. Nánast allt sjálfsaflafé samtakanna fer í að reyna að hjálpa fárveiku fólki sem er að biðja um hjálp. Þvílíkur sómi að slíkum stjórnvöldum sem geta í rauninni látið eins og ekkert sé þegar hátt í 100 einstaklingar deyja hér úr sjúkdómi án þess að fá hjálp. Ef þetta er ekki bananalýðveldi í orðsins fyllstu merkingu þá veit ég ekki hvað það er.

Í annan stað erum við að tala um að við bætist nýtt málefnasvið og nýir málefnaflokkar og það eru málefnaflokkar 28 og 30, sem er þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur. Þar erum við að tala um að framlag úr ríkissjóði muni aukast um 142 millj. kr. Hvar erum við að tala um þar? Hvað skyldi nú Flokkur fólksins vera að betla þar? Jú, við erum að leggja til að hækka framlög á málefnasviði 28 svo greiða megi 66.381 kr. í eingreiðslu í desember, það sem við höfum kallað jólabónus, til ellilífeyrisþega sem fá greiddan óskertan lífeyri almannatrygginga, þ.e. hafa lægri tekjur en sem nemur frítekjumörkum, 1. og 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar, á ársgrundvelli. Samkvæmt upplýsingum um Tryggingastofnun felur tillagan í sér að 2.135 einstaklingar myndu fá þessa hjálp. Í þeim hópi, hugsið ykkur, af 2.135 einstaklingum, eldra fólki sem við erum að reyna að hjálpa fyrir jólin og þessi ríkisstjórn og þetta háa Alþingi getur hæglega gert og þeim er í lófa lagið að gera — því að ekki skortir vilja til að hjálpa öllum öðrum. Ég segi ekki meira en það. Við erum að sjá 100 milljónir hér, 200 milljónir þar, milljarð hér og annan milljarð þar jafnvel. Í snobbpartí í Hörpu í vor voru teknir 1,5 milljarðar kr. úr varasjóðnum, hvorki meira né minna, fyrir partí sem stóð ekki í tvo sólarhringa, þar sem voru keyptar 70 lúxusbifreiðar, Audi Q8, þar sem voru flutt inn jakkaföt og hjálmar og vopn fyrir á annað hundrað milljónir króna sem reyndar aldrei hafa farið úr landinu, þar sem lágu hér skyttur úti um öll þök eins og við værum hreinlega að búast við loftárás. Það lágu aðkeyptir öryggisverðir með hríðskotariffla hér um allan bæ. Það er hægt að kasta peningum í þetta. Mér þætti gaman að vita hverju það skilaði. Í það minnsta ekki mat á diskinn fyrir einn einasta einstakling sem stendur hér höllum fæti, ekki einn einasta.

Af þessum 2.135 einstaklingum, eldra fólki sem gersamlega er múrað í rammgerða fátæktargildru og er í rauninni sá þjóðfélagshópur sem stendur langhöllustum fæti fjárhagslega, eru 1.007 sem koma úr hópi öryrkja. Við það að verða ellilífeyrisþegi þá lækkar einstaklingurinn í mörgum tilvikum í launum um allt að 28.000 kr. á mánuði, sem er hin svokallaða aldurstengda örorkuuppbót sem á ekki lengur við, nóttina sem þú verður 67 ára og heilbrigður sem sagt. Nóttina sem ég verð 67 ára og fleygi gleraugunum og tek bílprófið, það verður virkilega ánægjulegt eða þannig. En í það minnsta þá hættu þau að vera öryrkjar á þessari nóttu og aldurstengda örorkuuppbótin var náttúrlega fyrir bí og tekin af þeim og þau lækka enn þá meira í launum. Ríkisstjórnin veit ekki hvort hún er að koma eða fara í málefnum ellilífeyrisþega og öryrkja og veit ekkert um almannatryggingakerfið yfir höfuð, heldur hefur stagbætt það eins og Frankenstein-skrímsli ár eftir ár án þess að hér komi nokkur hæfur einstaklingur til að koma með almennilegar úrbætur á kerfinu. En til að gleðja alla og sérstaklega ríkisstjórnina þá er það hvorki meira né minna heldur en það að þessir 1.007 einstaklingar myndu fá að halda áfram sinni aldurstengdu örorkuuppbót vegna þess að Flokkur fólksins hefur einmitt komið með frumvarp sem tekur á því að það eigi alls ekki að breytast neitt hjá einstaklingnum við það að ganga yfir það strik frá því að vera örorkulífeyrisþegi yfir í það að vera ellilífeyrisþegi. Þannig yrðu þau aldrei skert um þessa aldurstengdu örorkuuppbót eins og nú er gert. Svo er það þannig að afgangurinn af þeim einstaklingum sem ekki voru örorkulífeyrisþegar og gengu yfir í kerfi ellilífeyris, afgangurinn upp í 2.135, eru einmitt einstaklingar sem í flestum tilfellum og öllum tilvikum eiga engin lífeyrisréttindi. Mjög mikið af þessu er fólk og eldri konur og einstaklingar sem hafa verið einir, eiga engin lífeyrisréttindi og konurnar sem stóðu heima, hugsuðu um börn og buru og elduðu ofan í okkur matinn og gáfu okkur tvær heitar máltíðir á dag ef þess var kostur þar sem þá var bóndinn úti að vinna. Þannig var það í þá tíð.

Síðan er það þriðja tillagan okkar hér og það er styrkur til hjálparstofnana sem eru að úthluta matargjöfum fyrir jól. Þá kemur nú aldeilis í ljós gæska ríkisstjórnarinnar, heldur betur. Ráðherra málaflokksins ætlar hvorki meira né minna en að snara af sinni mikilli góðmennsku heilum 8 millj. kr., takið eftir, 8 millj. kr. til níu hjálparstofnana sem eru að fara að gefa þúsundum fjölskyldna mat fyrir jólin. Það fer ekki á milli mála að fátækt hefur vaxið gífurlega í þessu árferði og var það nógu slæmt fyrir. Á hverjum bitnar þetta helst? Á hverjum skyldi þetta ástand bitna helst? Hver eru helstu fórnarlömbin í þessu aðgerðaleysi stjórnvalda? Það eru börnin. Það eru börnin sem báðu ekki um það að vera fátæk á Íslandi í dag. Það eru börnin sem eiga ekkert val. Það eru börnin sem geta hvorki fengið að sinna íþróttum eða tómstundum af öðru tagi né farið í tónlistarnám eða nokkurn skapaðan hlut. Það kemur enginn heim til fátæku foreldranna og barnanna og kennir þeim á fiðlu eða píanó. Þar eru engir ballerínuskór eða nokkur skapaður hræranlegur hlutur þannig. Þar eru engin ný föt keypt. Það er allt saman fengið hjá Hjálpræðishernum eða Rauða krossinum eða þeim stofnunum sem eru í rauninni bjargvættur fyrir þetta fólk. Þetta eru börnin sem eru út undan. Þetta eru óhreinu börnin hennar Evu, þau sem er gert grín að í skólanum af því að þau eru öðruvísi, af því að það er ekki hægt að leyfa þeim að fylgja öllum hinum. 8 millj. kr. til hjálparstofnana — þetta er skammarlegt. Þetta er svívirða og Flokkur fólksins er að biðja um lágmark sem er 150 millj. kr.

Það var athyglisvert, það er nú ekki inni í þessari tillögu vegna þess að það var verið að reyna að taka á því í fjárlögunum sjálfum, og þetta á náttúrlega allt saman — það á að gera ráð fyrir því þar. Það er ekkert af þessu ófyrirséð. Það er ekkert af þessu ótímabundið nema ótímabundið í boði ríkisstjórnarinnar af því hún er ekki að taka á því. Það er algerlega fyrirséð og búið að berjast fyrir því núna ár eftir ár að taka niður biðlistann á Vog. Það er algjörlega fyrirséð að það er vaxandi fátækt í landinu og hér standa fjölskyldur í röðum við hjálparstofnanir til að biðja um hjálp og mat fyrir jólin. Það er fyrirséð. Ég velti fyrir mér hvers lags eiginlega stjórnvöld það eru sem hafa í rauninni geð í sér til að fara á rauða takkann þegar verið er að biðja um hjálp fyrir bágstadda í landinu sem þau eru að stýra, sem þau voru kjörin til að stjórna. Það eru í rauninni grundvallarmannréttindi. Hér er nú mikið talað og básúnað um mannréttindi, persónufrelsi og persónuvernd. Það eru grundvallarmannréttindi í svo ríku landi sem við viljum teljast vera að hafa fæði, klæði og húsnæði fyrir alla, svo ég tali nú ekki um aðgang að heilbrigðisþjónustu. Ég hef ekki enn þá fengið nóg af því að minna hér á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Hvað skyldi nú standa þar? Þar segir í 1. mgr. 76. gr.: Öllum sem þess þurfa skal í lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna örorku, örbirgðar, sjúkleika, elli og nefnið það, öllu. Okkur er tryggður réttur í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til aðstoðar og það er í hendi löggjafans að sjá til þess að stjórnarskráin sé virt. En hér get ég fullyrt, frú forseti, að á hverjum einasta degi, í boði stjórnvalda, er þessi sama stjórnarskrá fótumtroðin.

Ég hvet alla til þess að fylgjast með því þegar við greiðum atkvæði um breytingartillögur Flokks fólksins, hóflegar breytingartillögur Flokks fólksins, og hina raunverulegu forgangsröðun fjármuna ríkisstjórnarinnar fyrir fólkið í landinu og hvað hún telur vera í forgangi, hvort það er almenningur. Hver hefur ekki heyrt þetta: Já, við erum hér og hugsum eingöngu um almannahagsmuni. Þetta er einhver sá falskasti söngur sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Við erum hér með ríkisstjórn auðvaldsins og ekkert annað, og það í forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þannig að við skulum sjá hvernig það verður þegar við erum að greiða atkvæði um þetta, hvort ríkisstjórnin og ráðherrar hennar, þegar við látum kalla upp nöfnin þeirra, verði jafn glöð að segja: Ég segi nei, eins og þau gerðu fyrir ári síðan þegar við komum með sambærilegar breytingartillögur í Flokki fólksins.

Ég get ekki annað sagt en að manni finnst maður vera standandi hérna undir vindmylluspöðunum, að berjast eins og rjúpan við staurinn, við vindmyllur, við blinda og heyrnarlausa ríkisstjórn eða ríkisstjórn sem sýnir það í verki, við skulum átta okkur á því, hvað hún vill raunverulega gera fyrir land og þjóð. Núna eru á fjórða hundrað Íslendingar og aðrir að frjósa úti hérna án þess að hafa húsnæði, húsnæðislausir einstaklingar. Ég fékk bréf í morgun þar sem ég var spurð að því: Inga, veistu það að mér er rosalega kalt? Inga, veistu hvað eru margir hér úti sem eru að frjósa úr kulda núna og við höfum í engin hús að venda? Ég sagði: Já, ég veit það. Þeim er hent út á götu á morgnana, þeim fáu sem komast inn í skjól á nóttunni, og þar þurfa þeir að bíða í 6–8 tíma eftir að fá skjól á ný. Þetta er Ísland í dag. Og hvað er þessi ríkisstjórn að gera í því?