154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Traust og örugg greiðslumiðlun er ein undirstaða virkni hagkerfisins og efnahagslegrar velsældar, segir í frumvarpsdrögum í samráðsgátt stjórnvalda um rekstraröryggi í greiðslumiðlun. Á undanförnum árum hefur áhætta vegna greiðslukerfa á Íslandi aukist. Aukin ógn á heimsvísu sem snýr að netöryggismálum, stríðsástand í Evrópu og aukin sundrung á alþjóðavísu hefur aukið enn á þörf fyrir bættan viðnámsþrótt greiðslukerfa og um þetta er einnig fjallað í frumvarpsdrögunum. Núverandi fyrirkomulag hér á landi hefur ógnað þjóðaröryggi líkt og Már Guðmundsson, þá seðlabankastjóri, benti á árið 2019 með bréfi til þjóðaröryggisráðs. Þjóðaröryggisráð hefur ítrekað fjallað um málið og bent á að tryggja þurfi fullnægjandi, innlenda, óháða smágreiðslulausn þar sem greiðslur og uppgjör fari fram á innviðum undir innlendri stjórn og sé ekki háð fjarskiptum til og frá landinu.

En málið varðar ekki einungis þjóðaröryggi heldur einnig hag almennings. Hvers vegna er notkun greiðslukorta og greiðslumiðlunar hér á landi margfalt dýrari fyrir okkur Íslendinga en íbúa annarra norrænna ríkja? Það er að mestu vegna þess að greiðslulausnir okkar eru allar háðar erlendum aðilum og þó að kostnaður vegna íslensku krónunnar og færri íbúa leiki einnig eitthvert hlutverk vegur hitt þyngra. Þetta þýðir að íslenskir neytendur eru ekki bara að greiða til íslenskra banka heldur borga þeir einnig til kortafyrirtækja í útlöndum. Hagnaður bankanna af þessu fyrirkomulagi hleypur á milljörðum en það er okkur neytendum mjög kostnaðarsamt því allir milliliðir vilja sitt á öllum stöðum og við neytendur borgum og getum ekki annað. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að frumvarp um þetta kæmi fram á Alþingi í október en það er ekki enn komið fram. Hvað tefur framgöngu þessa hagsmunamáls almennings og þjóðaröryggis?