154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:20]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, þetta virðist vera leikur sem er leikinn hérna endurtekið. Síðustu jól var ákveðið að fella á síðustu stundu niður fiskeldisgjaldið. Nú er það lækkað. Hér er ekki svigrúm til aðhalds, það er hins vegar svigrúm til aðhalds á lágtekjufólk með þunga greiðslubyrði á Íslandi. Við skulum halda því til haga hvar er verið að kroppa milljónir hér og þar.

Ég vil samt líka vekja athygli hér inni á að allir þeir stjórnarmeðlimir sem eru að samþykkja þessa breytingu hérna í dag eru að samþykkja breytingu sem felur í sér að það sem rennur í fiskeldissjóð lækkar um 100 millj. kr. miðað við það sem áður stóð til. Þetta er peningur sem á að fara til sveitarfélaganna sem stunda þetta fiskeldi, sveitarfélaga sem hafa grátbeðið um fjármagn og ramma og regluverk til að styrkja uppbyggingu þessarar atvinnugreinar á landsvísu, 100 millj. kr. sem er verið að taka núna úr fiskeldissjóðnum. Það er líka gaman að segja frá því að það er aðhaldskrafa sem fellur í ár á fiskeldissjóð, þannig að ríkið er að greiða inn í sjóðinn og leggja aðhald á sjálft sig, sem bitnar auðvitað beint á þessum sveitarfélögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)