154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:32]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Bankaskatturinn er smánarlega lágur, 0,145%. Hér er eingöngu verið að leggja til að hann hækki í það sem hann var fyrir lækkun enda hefur lækkun hans alls ekki leitt til lægri vaxta eða minni þjónustugjalda eins og ráð var fyrir gert. Þvert á móti eru þjónustugjöld bankanna í hæstu hæðum svo að ekki sé minnst á stjarnfræðilega háa vexti þeirra þar sem fé heimila og fyrirtækja er flutt í þeirra hirslur með stórvirkum færiböndum, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Bankarnir hafa undanfarin misseri skilað miklum hagnaði í skjóli fákeppni og hárra stýrivaxta. Það er kominn tími til að þeir skili samfélaginu til baka þótt ekki sé nema hluta af þeim ágóða. Varðandi óttann um að þessum kostnaði verði velt yfir á neytendur vil ég meina að það hljóti þá að eiga við um alla skatta sem nokkurn tímann eru lagðir á án þess að nokkur hafi nokkurn tímann áhyggjur af því. Það eru til leiðir til að koma í veg fyrir að kostnaðinum verði velt yfir á neytendur eins og margir óttast og við, hið háa Alþingi, erum löggjafarvaldið og eigum ekki að láta stjórnast af ótta við fjármálakerfið. — Ég segi já.