154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það eru nú í þessum fjárauka nokkrir liðir sem eru mjög mikilvægir en ég verð að byrja á því að segja að mér hefur fundist málflutningur sumra stjórnarandstöðuþingmanna svolítið sérstakur. Þar vil ég nefna t.d. hv. þm. Eyjólf Ármannsson frá Flokki fólksins sem sagði að hér væri í raun ekki verið að fara að lögum þar sem þetta væru ekki ófyrirséð útgjöld sem hér ættu við, það ætti að fara í varasjóðinn. Ég mótmæli þessu vegna þess að það er ekki hægt að segja annað en að t.d. bara það að bregðast við þeim náttúruhamförum sem áttu sér stað í Grindavík séu ófyrirséð útgjöld og það á svo sannarlega heima í fjáraukalögum. Einnig fannst mér sérstakt að heyra hér hv. þm. Sigmar Guðmundsson fara yfir þetta mál. Ég gat ekki séð annað en að hann hefði engar áhyggjur af landbúnaðinum og engar áhyggjur af náttúruhamförum í Grindavík þegar kæmi að fjáraukanum og ætti kannski ekkert heima þar.

Þannig að ég vil segja það að lokum, hæstv. forseti, að hér eru mikilvægir þættir eins og t.d. landbúnaðurinn, hér er verið að bregðast sérstaklega við vanda landbúnaðarins og ég fagna því alveg sérstaklega.