154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stjórnmálasamband Íslands við Ísrael.

[10:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Árið 2014 ritaði hv. þm. Katrín Jakobsdóttir grein um árásahrinu Ísraelshers á Gaza þar sem yfir 2.000 manns létu lífið og sagði, með leyfi forseta:

„Þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá. Ef ekkert lát verður á ofbeldisverkum Ísraels og ríkið heldur áfram að brjóta alþjóðalög og almenn mannréttindi hlýtur sú spurning einnig að vakna hvort rétt sé að slíta stjórnmálasambandi við ríkið.“

Ári síðar samþykkti landsfundur VG ályktun um að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Þegar Katrín Jakobsdóttir skrifaði greinina var hún óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu. Í dag leiðir hún ríkisstjórn landsins sem hæstv. forsætisráðherra en minna hefur farið fyrir þessari afstöðu síðan hún tók við því kefli. Árið 2014 höfðu 2.000 manneskjur látið lífið. Þegar þessi orð eru töluð hafa yfir 17.000 manns verið drepin á Gaza, saklausir borgarar í miklum meiri hluta og yfir helmingur þeirra börn. Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands segjast hafa talað skýrt á alþjóðavettvangi en það er ekki nóg. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hlýtur að þurfa að fylgja eftir ályktun Alþingis af fullum þunga og beita sér fyrir vopnahléi með öllum tiltækum ráðum. Fólk kann að halda því fram að litla Ísland hafi engin áhrif í stóra samhenginu en lítil þúfa getur velt þungu hlassi, jafnvel á alþjóðavettvangi. Þannig var Ísland fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og önnur ríki fylgdu á eftir.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Finnst henni tilefni til þess að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael líkt og hún gaf í skyn árið 2014? Telur hún ástæðu til þess að hefja viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvað breyttist frá því að hæstv. forsætisráðherra ritaði umrædda grein?