154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

niðurstöður PISA-könnunarinnar og umbætur í menntakerfinu.

[11:05]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ef hæstv. menntamálaráðherra er alvara með aukinn hlut Alþingis í þessu verkefni þarf að breyta lögum og ég skil orð hans sem svo að hann sé viljugur til að breyta lögum um grunnskóla. Aðalnámskrá getur ekki verið á forræði ráðherra eins, að ráðherra einn hafi forræði á aðalnámskrá þar sem línur um allt okkar skólastarf eru lagðar. Þar eru meginmarkmið náms, kennslu og uppbyggingar náms. Alþingi hefur ekkert um þessi mál að segja. Skólamál eru pólitísk. Alþingi verður að taka pláss í þessari umræðu og verður að fá hlutverk. Skólarnir eiga að undirbúa börnin okkar fyrir lífið og jafna tækifæri. 40% talan segir okkur að við erum ekki að jafna tækifæri á Íslandi. Við erum að fara í þveröfuga átt. Tækifæri barna ættu að vera kjarnapunkturinn hér og skólarnir ættu að vera okkar framtíðarmúsík. Þarna liggja tækifærin.

Ég vil segja í lokin varðandi námsefni og 7.000 kr. á hvert barn — þessi tala ætti að standa í 26.000 kr. ef hún fengi að þróast með eðlilegum hætti. (Forseti hringir.) Hérna erum við að bregðast börnunum okkar og við erum að bregðast kennurunum okkar. (Forseti hringir.) Ég ítreka spurninguna: Ætlar ráðherra að breyta lögum um grunnskóla og færa Alþingi þetta hlutverk til jafns við ráðherra?