154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég get verið sammála honum og því sem kom fram í umsögn Listaháskólans um mikilvægi lista, bæði út frá því að styðja við og vera þátttakandi í þekkingarsamfélaginu og skapandi greinum en ekki síður bara út frá stöðu lista í samfélaginu. Þá vil ég bara benda á það að hér erum við að fjalla um þingsályktunartillögu til að efla þekkingarsamfélag á Íslandi. Við afgreiddum hér á síðasta kjörtímabili eða á síðasta ári, ég man það ekki, fjölda aðgerðaáætlana er varða sérstaklega listir og ráðherra menningarmála hefur verið ötull í slíku. En hér erum við að fjalla um nákvæmlega þetta og þau markmið sem hér eru. Það er ágætt að ítreka það einmitt að hér er talað um átak í STEAM-aðferðafræði eða kennsluaðferðum, áður var oft fjallað um þetta án A, en A stendur þarna fyrir á engilsaxnesku „arts“ eða listir. Ég skoðaði vel þessar athugasemdir frá Listaháskólanum og var einmitt að velta því fyrir mér hvort við gætum sett það inn. En það einhvern veginn raskaði svolítið því góða jafnvægi sem er hér í þessari áætlun. En við ítrekum einmitt í nefndaráliti mikilvægi lista og listmenntunar. Mig langar í því samhengi að segja að t.d. risastórt fyrirtæki hér í tölvuleikjageiranum sem er með tölvuleikinn EVE Online, er með fjölda listamanna í starfi hjá sér, því að auðvitað er öll þessi hönnun byggð á listrænu innsæi og listamönnunum sem hafa gert þetta þannig að þessar greinar sem m.a. er verið að kenna í Listaháskólanum eru alveg ofboðslega mikilvægar fyrir þekkingarsamfélagið til framtíðar. Ég held líka að þegar við tölum um menntun barnanna okkar, við vitum kannski ekki alveg hvað þau munu fást við, þá er það einmitt fræðsla í þessu, gagnrýninni hugsun og listsköpun, sköpuninni sem slíkri, sem skiptir miklu máli.