154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Hér er efni í langt og skemmtilegt samtal milli mín og hv. þingmanns. Það fyrsta sem ég ætla að grípa niður í er varðandi íslenskukennsluna. Það er einmitt verið að vinna aðgerðaáætlun um eflingu íslenskunnar og slík aðgerðaáætlun hefur verið til í ákveðinn tíma. Hún heyrir reyndar undir annan ráðherra sem er þá ráðherra menningarmála jafnframt og við höfum fengið ágæta kynningu á því í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þannig að ég ætla bara að leyfa mér að segja að það má stundum fókusera á ákveðin atriði. Þegar kemur að háskólasamfélaginu okkar og nýsköpunarsamfélaginu þá eigum við fjölda greininga og við eigum niðurstöður frá fjölda sérfræðinga sem hafa bent á atriði sem við getum gert til að ná meiri árangri. Þau atriði er að finna í þessari þingsályktunartillögu.

Ég ætla því að leyfa mér að vera algjörlega ósammála hv. þingmanni um að þessi þingsályktunartillaga ætti að vera einhvern veginn miklu stærri og allt öðruvísi og taka á öðrum þáttum þó að ég kunni að vera sammála hv. þingmanni um að (Forseti hringir.) það þurfi líka að taka á þeim þáttum. Hvað grunnskólann og leikskólann og velferðarsamfélagið okkar varðar: Sjálfsagt mál, (Forseti hringir.) en það gerum við hér alla daga í öðrum málum. Svo megum við líka stundum tala um háskólann og nýsköpunina og þær aðgerðir sem þarf að bregðast við þar til að ná frekari árangri.