154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[17:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Hér er verið að ræða frumvarp um sölu á tóbaki. Í i-lið 6. gr. (6. gr. h-liðar) er fjallað um að fjarsala tóbakssölu til neytanda yfir landamæri Íslands sé óheimil. Þarna tel ég að verið sé að setja of þröng skilyrði því að fjarsala frá öðrum löndum innan EES ætti samkvæmt samningnum að vera leyfð. Ég hef fengið þær skýringar frá framsögumanni málsins að þarna sé í rauninni verið að banna fjarsölu frá löndum utan EES. Ég lagði fram breytingartillögu um að fella þessa grein brott en hef dregið hana til baka eftir viðræður við framsögumann málsins. Það er hins vegar þannig að þessi setning sem talar um landamæri Íslands er held ég of nákvæm ef það á að leyfa fjarsölu frá EES, eins og við megum t.d. gera í dag með áfengi. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir nefndina að skoða þetta svolítið vel áður en gengið er til atkvæða um þetta. Ég hef dregið til baka breytingartillöguna en ég hvet samt nefndina og framsögumanninn til að hugsa það hvort þarna sé textinn of nákvæmur miðað við þær upplýsingar sem ráðuneyti og framsögumaður hafa gefið, en þar er fjallað um að þetta sé einungis til að stöðva fjarsölu frá löndum utan EES, að hún sé bönnuð. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum þetta alveg á hreint, hvort sem það er í greinargerð eða öðru. Eitthvað þarf alla vega að gera til að þarna séum við ekki að setja enn þá meiri skorður en EES-samningurinn gerir í rauninni. Í dag megum við kaupa áfengi. Af hverju ætti það sama ekki að gilda um tóbakið? Ég skil það að ég megi kannski ekki kaupa mér kúbverska vindla beint frá Kúbu en ef ég vil kaupa þá í gegnum söluaðila sem selur þá í Brussel, af hverju ætti ég ekki að mega það? Erum við hér kannski að setja of ströng skilyrði inn í löggjöf hjá okkur sem síðan mun bíta okkur þegar eftirlitsstofnun ESA skoðar þessi lög, sérstaklega ef það eru einhverjir innan hennar sem eru mikið fyrir kúbverska vindla keypta í Brussel? Þá gætum við fengið á okkur dóm um að þarna séum við að gera eitthvað of nákvæmt eða of takmarkað miðað við það sem EES-tilskipunin, sem hér er verið að innleiða, ætlaði í rauninni að gera. Mig langar því bara að hvetja nefndina til þess að skoða þetta ef mögulegt er því að þetta er eitthvað sem við verðum að passa okkur á, að við séum ekki að setja reglur of þröngt miðað við EES-samninginn.