154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[11:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það að stunda kynlíf með barni er alltaf nauðgun. Löggjöfin er mjög skýr á því að barn undir 15 ára aldri getur ekki gefið upplýst samþykki um kynmök. Það hefur hreinlega ekki þroska til þess. Því miður höfum við á undanförnum vikum fengið að sjá a.m.k. tvö mál þar sem dómarar í héraðsdómi hafa ákveðið að dæma einstaklinga sem eru næstum tvöfalt eldri en börnin sem þeir nauðguðu einungis fyrir brot á 202. gr. hegningarlaga, sem fjallar um samræði og kynferðismök við börn undir 15 ára aldri, í stað þess að dæma viðkomandi fyrir nauðgun skv. 194. gr. hegningarlaga. Drífa Snædal, talskona Stígamóta, hefur harðlega gagnrýnt þessa dóma og bent á að jafnvel þótt tæling hafi átt sér stað sé það ekki tekið til greina í dómnum. Kolbrún Benediktsdóttur varahéraðssaksóknari og Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, taka báðar undir þá gagnrýni að börn á þessum aldri geta ekki veitt samþykki og þegar um er að ræða svona mikinn aldursmun þá geti það alls ekki talist gilt samþykki. Kolbrún bendir jafnframt á að þetta sé ólögmæt nauðung í ljósi yfirburðarstöðu þeirra sem frömdu verknaðina.

Virðulegi forseti. Báðum þessum dómum hefur verið áfrýjað til Landsréttar og það er óskandi að þar verði tekið rétt á þessum málum. Ef ekki þá er það skylda okkar hér á Alþingi að skýra löggjöfina svo allir dómarar þessa lands skilji hver vilji löggjafans er: Það að stunda kynlíf með börnum er og mun alltaf verða nauðgun.