154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[11:59]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur minnkað fimm ársfjórðunga í röð. Hvað þýðir það fyrir venjulegt fólk? Jú, það þýðir að þú færð minna fyrir launin en áður og þarft því einhvers staðar að draga saman. Samkvæmt könnun Gallups segjast rúmlega 30% landsmanna eiga erfiðara með að ná endum saman en áður og hefur þetta hlutfall farið hækkandi. Þetta ættu að vera skýr skilaboð til okkar stjórnmálamanna en því miður er ekki verið að nýta fjárlagafrumvarpið, sem væntanlega verður samþykkt á morgun, til að snúa þessari þróun við. Þeir möguleikar sem ríkisstjórnin hefur, m.a. í tilfærslukerfunum, til að jafna hlut fólks eru ekki nýttir. Þvert á móti munu mun færri fá húsnæðis-, vaxta- og barnabætur á næsta ári og það segir ýmislegt um forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Peningarnir eru samt ekkert að hverfa og það sem við erum að sjá núna hefur gerst áður. Þarna er einfaldlega um að ræða að verið er að færa fjármuni frá einum hópi til annars; frá íslensku launafólki til fjármagnseigenda, frá hópi fólks sem í sífellt fleiri tilfellum á erfitt með að láta enda ná saman til þeirra sem þurfa ekkert á auknum fjármunum að halda. Í morgunsárið hlustaði ég á auglýsingar fjölmiðlanna þar sem verið var að auglýsa vörur sem venjulegt fólk hefur ekki ráð á að kaupa en fréttir dagsins fjalla hins vegar um að biðlistar eftir matargjöfum séu sífellt að lengjast. Við aðstæður sem þessar reynir á okkur stjórnmálafólkið. Ætlum við að láta það óátalið að ráðstöfunartekjur fólks minnki æ ofan í æ? Erum við ekki hér til að tryggja afkomu almennings? Jú, við eigum að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni og tryggja að ekki sé verið að grafa dýpra og dýpra ofan í vasa almennings.