154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[12:03]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Dugnaði Grindvíkinga er viðbrugðið. Hjól atvinnulífsins eru farin að snúast í Grindavík. Við heyrum að Bláa lónið er að fara að opna, fiskvinnslan er að fara af stað, bátarnir eru á sjó. Það lítur allt ágætlega út. Í kjölfarið munu íbúarnir sigla heim í friðarhöfn. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi þróun haldi áfram og Grindvíkingar komist að lokum allir heim.

Ég man það í gosinu í Vestmannaeyjum 1973 að þegar reykurinn úr gúanóunum kom upp úr strompunum þá kættust björgunarmennirnir. Náttúran er auðvitað ólíkindatól. Hún mun aldrei svara þeim spurningum sem við spyrjum þegar við veltum því fyrir okkur hvernig framtíðin muni líta út. Þess vegna er Ísland í rauninni eitt stórt hættusvæði. Ég held að við séum í miklu meiri hættu á Íslandi af mannavöldum eins og nú er en af völdum náttúrunnar. Ferðaþjónustan berst í bökkum og við þurfum á öllu okkar að halda til að ná fótfestu þar aftur.

En að Grindvíkingum. Ríkisstjórnin og Alþingi hefur unnið að málefnum þeirra af miklum krafti og sameiningu og núna síðast varðandi breytingar á almennum íbúðalánum til að búa til leiguhúsnæði fyrir Grindvíkinga. Vonandi þarf ekki eins margar íbúðir og við héldum. Staðan í Grindavík er bara mikið betri, bæði á húsum og almennum innviðum, þannig að framtíðin eins og hún blasir við mér í dag fyrir hönd Grindvíkinga er góð. Þar er dugmikið og duglegt fólk sem við hér í þinginu eigum að styðja í hvívetna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)