154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála því að hér sé ekki framtíðarsýn. Ég held að hún liggi nú sannarlega fyrir. Við getum svo átt í ágreiningi um það hvort við teljum þetta nægilega vel fjármagnað. Við erum með aðhaldssöm fjárlög þetta komandi ár, það liggur alveg fyrir. En þrátt fyrir að við höfum gert 75% af þeim Covid-peningum sem í þessa sjóði voru lagðir varanleg þá breytir það því ekki að þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að huga enn frekar og betur að til framtíðar. Þar gefst okkur tækifæri í fjármálaáætlun til að leggja niður fyrir okkur nákvæmlega hvernig við getum fjármagnað í framhaldinu þessa tillögu sem hér liggur fyrir lið fyrir lið. Þannig að ég styð að sjálfsögðu þessa tillögu sem hér er undir og tel að við höfum stutt afskaplega vel við vísindi og rannsóknir fram að þessu og auðvitað komum við til með að gera enn frekar og betur í þeim efnum.