154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Bara stuttlega, ég vil mótmæla því sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson sagði hér áðan að það væri vandræðagangur með þetta mál. Það er rangt. Það er enginn vandræðagangur með þetta mál. Það er verið að vinna þetta mál með mjög vönduðum hætti. Við höfum kallað málið til allsherjar- og menntamálanefndar milli 2. og 3. umræðu, einfaldlega til þess að ræða það enn frekar og ræða þær breytingartillögur sem lagt er upp með þannig að málið fær hér mjög vandaða og góða meðferð, enda er það mikilvægt og það er stórt og mikið og þess vegna er mikilvægt að ná breiðri sátt um það. Við höfum fengið fjölmarga gesti fyrir nefndina, þar á meðal safnara og ein af þessum breytingartillögum gengur út á það að hafa örlítinn glugga fyrir safnara sem við höfum skoðað mjög vandlega, en munum halda áfram að fara yfir það í fullri sátt í nefndinni. Svo að því sé haldið til haga þá er enginn vandræðagangur með þetta mál. Við erum bara að vinna þetta með mjög vönduðum hætti.