154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það fer víst ekki á milli mála að við erum að greiða atkvæði um allt hvað eina. En eitt hefur vakið athygli okkar hjá Flokki fólksins og það er a-liður 11. gr. sem virðist fela það í sér að það eigi að fella niður persónuafslátt örorku- og ellilífeyrisþega sem fá greiðslur almannatrygginga en búa annars staðar. Þess vegna munum við vilja kalla málið aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umræðu og fá það algerlega á hreint um hvað er verið að tala, því að ef það er eins og það sýnist við fyrstu athugun þá er málið algerlega grafalvarlegt. Þrátt fyrir að Flokkur fólksins sé ítrekað að óska eftir því að persónuafsláttur sé færður frá þeim sem eru moldríkir til þeirra sem eiga minna þá vissum við náttúrlega aldrei að það væri möguleiki að ríkisstjórnin tæki því þannig að hún réðist á garðinn þar sem hann er langlægstur og ætlaði að hrifsa persónuafsláttinn af bláfátæku fólki sem hefur kosið með fótunum og flúið land af því að hér hefur það ekki náð endum saman. Þannig að ég segi það og tel, herra forseti, afskaplega mikilvægt að málið verði skýrt betur út fyrir okkur því að ég trúi eiginlega ekki að þetta sé rétt eins og ég skil það.