154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:16]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Varðandi gistináttagjaldið þá erum við að taka það aftur upp eftir Covid og það er mjög mikilvægt að hér sé vandað vel til verka. Það sem mér hefur kannski fundist vanta svona almennt í umræðunni — ég hef verið hér í sjö ár og margtalað um þetta — er hvernig við ætlum að takast á við Airbnb og þessa hótelvagna eða hvað við köllum þá, oft kallaðir „campers“, þessir litlu sendibílar sem fara um landið, og hvernig gjaldtakan á að vera á þeim bílum hér á landi. Þetta hefur vaxið mjög, er gríðarlegur fjöldi bíla og ekki í eðlilegu samhengi við það sem við þekkjum kannski almennt í gistingu á Íslandi. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta fái umfjöllun hér í störfum þingsins og að hugað sé að því hvernig eigi að fara með þessi mál. Við verðum að hafa í huga að þessi þáttur er örugglega hlutfallslega hvergi stærri í ferðaþjónustu heldur en hér á landi, eins og margt annað. Airbnb er mjög stórt og ferðaþjónustan almennt stór og því þarf að hafa góða umgjörð um þessi mál.