154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Við í Flokki fólksins höfum áhyggjur af þessum staflið 11. gr. og óskum eftir því að málið verði kallað aftur inn á milli 2. og 3. umræðu til frekari ígrundunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Málið er í rauninni það alvarlegt að þrátt fyrir að hér sé verið að segja að ekki komi til með að persónuafsláttur verði tekinn af einstaklingum vegna tvísköttunarsamninga við viðkomandi lönd þá fengum við umsögn frá Öryrkjabandalagi Íslands sem segir að það sé ekki hægt að ganga út frá því sem vísu. Það liggur á borðinu að þeir einstaklingar sem eru að fá greitt frá almannatryggingum gangast undir staðgreiðslu hér og eiga að njóta persónuafsláttar hér. Okkur í Flokki fólksins þykir því meira en mikilvægt að málið komi aftur fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd og við fáum alfarið úr því skorið hvað hér er á ferð.