154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:07]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hér um flutningskerfið og mikilvægi þess að styrkja það og fjárfesta í því eins og við í Samfylkingunni höfum talað fyrir. Hvað kemur fram í stefnu Samfylkingarinnar, sem ég tek fagnandi að rætt sé um í þessum sal? Það er talað um græna verðmætasköpun, uppbyggingu sem byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar er fjallað um varúðarregluna þegar kemur að náttúrunni sem er nú bara eitthvað sem er bundið í íslensk lög og ég hygg að við séum flest sammála um. Þar er fjallað um mikilvægi þess að virða leikreglur rammaáætlunar. Auðvitað felur það ekki í sér að lög um rammaáætlun séu greypt í stein í eitt skipti fyrir öll, það megi ekki þróa áfram löggjöfina okkar eins og aðstæður kalla eftir. Þannig að ég hygg að allt sem ég hef sagt um þessi mál sé í fullkomnu samræmi við stefnu Samfylkingarinnar og ekki bara stefnu Samfylkingarinnar eins og hún lítur út á blaði heldur líka aðgerðir okkar í Samfylkingunni þegar við höfum verið í stjórn og hvernig við höfum greitt atkvæði í þingsal þegar kemur að virkjunarkostum. Þetta er stutta svarið mitt við spurningu hv. þingmanns sem ég þakka kærlega fyrir að hafa varpað hér fram.