154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:08]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir mjög góða ræðu. Ég ætla ekki að fara út í stefnuskrá Samfylkingarinnar en ég get alveg tekið undir það að það er mikil orka í hv. þingmanni og er það vel. Hv. þingmaður flutti hér hörkugóða og öfluga ræðu rétt áðan og fór yfir breytingartillögur frá atvinnuveganefnd sem við erum með hér til umræðu og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum að fara hér vissa braut, svolítið frá því sem við lögðum af stað með í upphafi. Ég vil bara minna á það að þær tillögur sem hér liggja fyrir byggja á vinnu starfshóps sem skilaði af sér fyrir rúmu ári síðan, í júní 2022. Það er það sem við erum að styðjast við. Mig langar að beina því til hv. þingmanns að velta því upp hérna við mig ef við færum þá leið að t.d. Landsvirkjun myndi vera með 50% af almenna markaðnum, Orka náttúrunnar, 26% og HS Orka með um 8%, ef við tækjum þetta bara í þessu samhengi: Hver yrðu áhrifin á minni vinnslufyrirtækin ef af yrði að við þyrftum að taka í neyðarhemilinn? Ég held að það sé svolítið sem við þurfum að velta verulega fyrir okkur, hver áhrifin verða á minni vinnslufyrirtæki ef af yrði, sem ég vona að komi aldrei til, ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það. Það væri gaman að taka smárúnt um þetta hér í ræðustól Alþingis.