154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning og mikilvægt að velta þessu fyrir sér. En ég held t.d. að það sé ofboðslega erfitt að svara þessari spurningu með þær upplýsingar sem nefndin býr yfir. Eins og reyndar hv. þm. Óli Björn Kárason, framsögumaður málsins, fór yfir hérna áðan þá er orkumarkaðurinn að einhverju leyti mjög ógagnsær. Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvernig kaupin gerast á eyrinni. En það sem ég gagnrýni fyrst og fremst við þessa leið sem er valin er að hún er mjög íþyngjandi gagnvart Landsvirkjun, langt umfram þær kröfur sem gerðar eru til hinna fyrirtækjanna. Ég velti fyrir mér: Hvernig á það að ganga upp að farin sé sú leið sem hér er lögð til, að hlutfall Landsvirkjunar, framboðstryggingin þar, verði sem hlutfall af heildarframleiðslu í landinu? Ef sú leið er farin er vissulega mjög miklum byrðum létt af hinum fyrirtækjunum sem hv. þingmaður nefndi. Hugsanlega væri hægt að fara einhverja millileið þannig að hin fyrirtækin þurfi að leggja eitthvað af mörkum og ég vona að hv. þingmaður treysti sér til að skoða einhverjar fleiri útfærslur núna milli umræðna.