154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

raforkulög.

541. mál
[16:45]
Horfa

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir (P):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, að hér séum við farin að átta okkur á því að til þess að samfélagið okkar geti virkað eins og við viljum og markmiðum okkar til velferðar verði náð er ekki hægt að leyfa alltaf frjálsa markaðinum að fara alfarið með ákvörðunarvald um hver fær orku. Auðvitað er það hagkvæmara ef við tölum bara út frá peningum séð að nýta orku í framleiðslu á Bitcoin eða áli. En eins og við vitum eru fleiri hlutir mikilvægir og því fagna ég að við séum farin að átta okkur á því og leggjum fram þetta frumvarp. Íslenska ríkið hefur nefnilega skuldbundið sig, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson minntist á, við höfum skuldbundið okkur til að afhenda orku til heimila og ég fagna því að verið sé að fylgja því eftir hér með þessu frumvarpi. En eins og ég hef oft minnt á og ætla að gera það enn og aftur í dag þá hefur Ísland einnig skuldbundið sig til að standa við Parísarsáttmálann og fara í aðgerðir sem passa að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C og því þarf einmitt aðgerðir til að fylgja því eftir. Loftslags- og náttúruverndarmál mega nefnilega ekki vera bara eitthvert hliðarstefnumál sem við förum í ef við höfum tíma til heldur þurfa þau að vera kjarni allra okkar aðgerða.

Sú breytingartillaga sem ég legg fyrir og er hér að mæla fyrir gerir Orkustofnun kleift að mynda stefnu um forgangsröðun orku þannig að aðgerðum og verkefnum sem hafa bein áhrif á að minnka losun Íslands verði forgangsraðað. Þetta er bara fyrsta skrefið en eins og margir þingmenn hafa hér nefnt, að við viljum endilega nýta tímann á nýju ári til að fara í meiri endurskoðun varðandi raforkulög, þá er þetta mjög gott skref til að byrja þá vinnu, getum nýtt það einmitt á nýju komandi ári.

Við höfum verið mjög heppin með það á Íslandi að við framleiðum mesta raforku á mann ef miðað er við höfðatölu og höfum eiginlega aldrei áður þurft að taka einhverja alvöruumræðu um hvert við viljum að orkan fari. Það sem gerir hinn frjálsa markað mjög aðlaðandi, svo ég vitni í heimspekiprófessorinn Michael Sandel, er að hann leyfir okkur að sleppa við siðferðislegar og erfiðar spurningar sem við þurfum einn daginn að takast á við eins og t.d. í dag, því að það er skýrt nú að orkuframleiðsla er takmörkuð auðlind og við erum því komin í stöðu þar sem við viljum forgangsraða orku til heimilanna og ég tek vel undir það. Ég legg líka til að það verði líka forgangsraðað til grænna verkefna. Orka er grunnauðlind og innihaldsefni allra hagkerfa og dreifing hennar veldur afleiðingum, góðum eða slæmum, hvort sem við höfum tekið ákvörðun um það eða frjálsi markaðurinn. Þannig að þótt við séum viljandi að blinda okkur fyrir því og binda hendur varðandi það hver fær orkuna þá verða samt afleiðingar burt séð frá því.

Ég ætla líka að vitna í hagfræðinginn Mariana Mazzucato þegar hún talar um að á 21. öldinni, ef ríki ætla að ná sínum markmiðum um róttækar samfélagsbreytingar í kjölfar loftslagsbreytinga, sé kominn tími til að ríki leggi línurnar í veitingu styrkja og auðlinda, ekki til þess að velja sigurvegara, eins og hefur oft verið haldið fram að öll aðkoma ríkisins sé byggð á, heldur að velja þá viljugu, þá sem eru tilbúnir að breytast í takt við tímann og í takt við stefnu stjórnvalda til að ná fram okkar samfélagslegu markmiðum.

Ég vil taka fram að þessi breytingartillaga er algjört byrjunarskref því að það er alveg rétt sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur sagt, að orkuskipti verða eitt mikilvægasta mál næstu ára. Það er skortur á orku og við höfum bundið okkur til langtímasamninga og á meðan þeir eru í gildi og það er ekki að losna um nýja orku þá þurfum við aðeins að íhuga hvað við ætlum að gera til að fylla upp í það gat og ná fram orkuskiptum. En til þess að ná því fram og mögulega að skapa sátt í samfélaginu um hvernig við getum gert það þá þarf að vera skýrt að ný orka fari í að fylla upp í þetta gat og við getum m.a. gert það með því að samþykkja þessa breytingartillögu, þetta er algjört fyrsta skref. Margt þarf til að skapa þessa sátt og ég vil líka leggja til að þingið skoði eigendastefnu ríkisins sem á við um Landsvirkjun. Þar er lítið talað um hvert markmiðið með orkunni sé. Það er talað um einhverja smá samfélagslega ábyrgð en það er ekki talað mikið um hvernig eigi að takast á við spurningar eins og t.d. hvernig eigi að velja á milli hagnaðar- eða náttúruverndarsjónarmiða eða sjónarmiða orkuskipta. Ég vil hvetja ríkið til að takast á við það á nýju ári og mæli með því að þessi breytingartillaga verði samþykkt því að hér er bara verið að taka fyrsta skrefið eins og margir hafa verið að tala um að vilja endilega gera í dag.