154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[19:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti í 542. máli sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir. Frumvarpið lýtur að úrbótum á brunavörnum og með því eru lagðar til breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir. Frumvarpið er samið með hliðsjón af skýrslu starfshóps um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu en skýrslan var gerð í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg í Reykjavík á sumarmánuðum 2020.

Nefndin hefur fjallað um málið og telur meiri hlutinn brýnt að það nái fram að ganga svo unnt verði að bregðast við núverandi aðstæðum í húsnæðismálum hér á landi. Á undanförnum árum hefur búseta á höfuðborgarsvæðinu tekið talsverðum breytingum en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands voru í byrjun september á þessu ári tæplega 4.000 einstaklingar skráðir án tilgreinds heimilisfangs á landinu öllu sem flestir búa nú í atvinnuhúsnæði.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og það bárust umsagnir en greint er frá því í nefndaráliti sem liggur hér frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti nefndarinnar árétta sérstaklega sérstakt aðsetur en nefndin fjallaði um breytingu sem lögð er til á lögum um lögheimili og aðsetur og felur í sér að heimila einstaklingum sérstaka aðsetursskráningu í atvinnuhúsnæði þar sem búseta í óleyfi á sér stað. Um er að ræða heimild til tímabundinnar skráningar í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir ekki skilyrði 3. og 4. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Breytingin er lögð til í öryggisskyni með það að markmiði að efla öryggi þeirra sem búa í slíku húsnæði þó svo að gildandi löggjöf geri ekki ráð fyrir því að þar sé búið.

Í umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram sjónarmið um að breytingin kunni að orka tvímælis og jafnvel fjölga í þeim hópi sem býr í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir ekki ýtrustu kröfur laga. Meiri hlutinn bendir á að nokkur fjöldi fólks býr í dag í húsnæði sem ekki er skilgreint í skipulagi sveitarfélaga sem íbúðarhúsnæði. Þá er í greinargerð með frumvarpinu rakið að frumvarpinu er ekki ætlað að koma í veg fyrir óleyfisbúsetu heldur fremur að formfesta og skýra þær heimildir sem viðbragðsaðilar hafa til að bregðast við. Meiri hlutinn undirstrikar að hér er um að ræða tímabundið úrræði og tekur undir þau sjónarmið að ekki eigi að una og heimila ótímabundið skráningu aðseturs einstaklinga í atvinnuhúsnæði.

Þá fjallaði nefndin um breytingar sem eru lagðar til á lögum um brunavarnir. Markmiðið er að bæta úr gildandi lagastoð slökkviliðsstjóra og eftirlitsmanna hans um aðgang að íbúðarhúsnæði. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að litið hafi verið svo á að slökkviliðið hafi heimild til að fara inn í atvinnuhúsnæði án dómsúrskurðar þrátt fyrir að fólk virðist búa í húsinu enda sé búsetan ólögleg. Hins vegar hafi sú staða ítrekað komið upp að slökkviliði hafi verið meinaður aðgangur að íbúðarhúsnæði. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem vísað er til í nefndaráliti komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að gildandi heimild 1. mgr. 20. gr. laga um brunavarnir uppfyllti ekki kröfur um skýrleika og vandaðan undirbúning lagaheimilda. Meiri hlutinn telur mikilvægt að bregðast við því sem fram kemur í framangreindum úrskurði og í umsögnum um málið til nefndarinnar var lögð áhersla á að til að eftirlitsaðilar geti sinnt skyldum sínum þurfi heimildir þeirra að vera skýrar og óumdeildar. Það eigi við um allt húsnæði, hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að ákvæði er kveði á um slíkar heimildir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til skýrleika lagaheimilda.

Breytingar á lögum um brunavarnir. Nefndin fjallaði einnig um breytingar á þessum lögum sem fela í sér að slökkviliðsstjóri fái heimildir til álagningar stjórnvaldssekta á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn ákvæðum 23. og 24. gr. laganna en þau ákvæði taka til brunavarna og brunahönnunar mannvirkja. Nefndin fjallaði um þær heimildir sem slökkviliðsstjóri hefur nú til álagningar dagsekta en fram kom bæði í greinargerð með frumvarpinu og við umfjöllun nefndarinnar að dagsektir hafi ekki virkað sem skyldi. Með frumvarpinu er því lagt til að auka við heimildarákvæði sem gerir ráð fyrir því að slökkviliðsstjóri geti lagt á sektir í alvarlegustu tilvikum. Meiri hlutinn telur ákvæðið til bóta en leggur áherslu á að gætt sé meðalhófs við beitingu sektarheimildarinnar og undirstrikar það sem fram kemur í greinargerð, að slökkviliðsstjóri beiti heimildum sínum í hófi og sekti aðeins í alvarlegustu tilvikunum.

Nefndin fjallaði að auki um álagningu fasteignaskatta í þeim tilvikum sem einstaklingur hefur skráð aðsetur, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og við umfjöllun hennar komu fram sjónarmið þess efnis að óljóst væri á grundvelli hvaða ákvæða laga um tekjustofna sveitarfélaga sveitarfélögin myndu í þessum tilvikum leggja á fasteignaskatta. Meiri hlutinn vill í því samhengi undirstrika að með frumvarpinu eru lagðar til úrbætur á brunavörnum. Hér er því um að ræða tímabundna skráningu aðseturs í atvinnuhúsnæði í eitt ár sem ekki er ætlað að hafa áhrif á byggðaþróun í sveitarfélögum og felur ekki í sér breytingar á ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Meiri hlutinn leggur til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem hér verða reifaðar. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á lögum um lögheimili og aðsetur er varðar heimild til aðsetursskráningar í óviðráðanlegum tilvikum. Þjóðskrá Íslands er samkvæmt lögunum aðeins heimilt að skrá aðsetur einstaklinga innan lands þegar þeir þurfa að búa annars staðar en á lögheimili sínu vegna veikinda eða náms auk sérheimildar sem tekur til alþingismanna. Í óviðráðanlegum aðstæðum á við þær sem nú eru í Grindavík, þar sem rýmingar tiltekinna svæða er krafist, er mikilvægt fyrir viðbragðsaðila og aðra að geta í kjölfarið staðsett viðkomandi íbúa.

Með lögum um sérstakan sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sem samþykkt voru á Alþingi fyrr í þessum mánuði var samþykkt tímabundin heimild til handa einstaklingum með lögheimili í Grindavíkurbæ til að skrá aðsetur í fjöldahjálparstöðvum, frístundabyggð og atvinnuhúsnæði. Hins vegar hefur engin almenn heimild verið lögfest til aðsetursskráningar vegna slíkra „force majeure“-atburða í lögum um lögheimili og aðsetur. Er því lagt til að sérstaklega verði kveðið á um heimild einstaklinga til aðsetursskráningar í óviðráðanlegum tilvikum. Meiri hlutinn tekur fram að gert er ráð fyrir að heimildinni verði eingöngu beitt samkvæmt ákvörðun viðkomandi lögreglustjóra og þar skuli koma fram til hvaða einstaklinga eða til hvaða svæða umrædd ákvörðun nær, einungis þeim einstaklingum sem ákvörðunin nær til verði heimil aðsetursskráning á grundvelli ákvæðisins og skráningin gildi þar til almannavarnir og/eða viðkomandi lögreglustjóri tilkynni Þjóðskrá Íslands um að skilyrði hennar séu ekki lengur fyrir hendi.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar frestun á gildistöku lögheimilisskráningar en með b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gerð verði breyting á lögum um lögheimili og aðsetur sem kveði á um að þinglýstur eigandi fasteignar ákveði hversu margir einstaklingar megi hafa lögheimili í fasteign hans og tilkynni það til Þjóðskrár Íslands. Stofnunin leggur í umsögn sinni til að gildistöku ákvæðisins verði frestað til 1. febrúar 2025 og vísar til þess að um sé að ræða flókna breytingu sem krefjist umfangsmikillar vinnu. Að því virtu leggur meiri hlutinn til breytingartillögu um frestun á gildistöku ákvæðisins en telur jafnframt ástæðu til að árétta að ábyrgð á skráningu hvílir á þinglýstum eigendum fasteigna. Þá undirstrikar meiri hlutinn að úrræðið eigi að koma í veg fyrir að einstaklingar skrái lögheimili sitt á lögheimili annarra án samþykkis þinglýstra eigenda. Það komi hins vegar ekki í veg fyrir að þinglýstur eigandi leyfi tilteknum fjölda einstaklinga að skrá lögheimili á eign sína.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar brunavarnir í eldri timburhúsum en við meðferð málsins fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að slík hús séu talin sérstakur áhættuþáttur í brunavörnum íbúða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun benti á í umsögn sinni að lagastoð skorti fyrir vinnslu átaksverkefna vegna brunavarna í eldri timburhúsum en fyrirhuguð átaksverkefni séu í samræmi við níundu tillögu í skýrslu um úrbætur í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg. Eigendur timburhúsa sem byggð eru fyrir 1999 verði virkjaðir til að framkvæma sjálfsmat á eigin brunavörnum. Verkefnið muni fela í sér vinnslu persónugreinanlegra upplýsinga sem stofnunin býr nú þegar yfir, þ.e. þinglýstra eigenda. Þá er gert ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að miðla niðurstöðum um einstakar fasteignir til slökkviliðs hlutaðeigandi sveitarfélags ef eigandi viðkomandi húsnæðis óskar þess að niðurstöður matsins verði skráðar í gagnagrunn stofnunarinnar. Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til ákvæði til bráðabirgða við lög um brunavarnir.

Að lokum er í fjórða lagi lögð til breyting á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem felur í sér að stofnuninni verði heimilt að miðla til slökkviliðs upplýsingum sem hún hefur um búsetu fólks í húsnæði þar sem brunavarnir eru ófullnægjandi. Slík heimild yrði almenn og tæki þannig til allra tilvika þar sem stofnunin fær upplýsingar um slíka búsetu við framkvæmd lögbundinna verkefna sinna. Í erindi ráðuneytisins til nefndarinnar kom fram að þörf sé á almennari heimild þar sem slíkar upplýsingar gætu einnig komið fram við framkvæmd greiðslu húsnæðisbóta svo og í tengslum við skráningu leigusamninga í leiguskrá stofnunarinnar. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið ráðuneytisins sem hér hafa verið reifuð og leggur til breytingartillögu þess efnis. Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bjarni Jónsson, sem er formaður nefndarinnar, Halla Signý Kristjánsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson, Vilhjálmur Árnason, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Frú forseti. Frumvarp þetta er einn liður í því að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði. Hún hefur m.a. gert það að verkum að margir einstaklingar flytja í óleyfisíbúðir í atvinnuhúsnæði þar sem m.a. eldvörnum er illa eða ekki sinnt. Kröfurnar til slíks húsnæðis eru lakari, t.d. um brunavarnir, enda er ekki gert ráð fyrir að einstaklingar búi þar. Síðustu vikur og mánuði höfum við séð hversu hættuleg slík búseta getur reynst en almennt er um að ræða einstaklinga í neyð sem eru beinlínis settir í hættulegar aðstæður í gróðaskyni. Það er augljóst hversu nauðsynlegt það er að veita eftirlitsaðilum fullnægjandi lagastoð til að bregðast við. Þeir aðilar sem leigja atvinnuhúsnæði sitt út til óleyfisbúsetu verða að axla ábyrgð á því en með þessu frumvarpi er verið að tryggja viðeigandi eftirlitsaðilum heimild til að sinna eftirliti og beita sektarúrræðum þegar við á. Á meðan við erum að rétta úr kútnum á húsnæðismarkaði þá verðum við að koma í veg fyrir að erfiðar aðstæður fólks séu gerðar að féþúfu af hálfu aðila sem leyfa sér að virða hættu fólks í sínu húsnæði að vettugi. Það er von mín að þessu máli verði vísað til 3. umræðu en ég hef lokið máli mínu.