154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið hans og spurningar sem eru afar mikilvægar. Ég tek undir það að eitt mannslát er einu of mikið, það er alveg hárrétt. Varðandi refsingu af einhverju tagi þar sem einstaklingar búa við óviðunandi aðstæður ef til bruna kæmi í húsnæði þá var fjallað um mögulegar sektir og farið yfir t.d. dagsektir sem slökkviliðið hefur tækifæri til að beita í dag en taldi í rauninni ekki ná fram að ganga nægilega vel vegna tilheyrandi kostnaðar við það.

En við fjölluðum um þetta sem felur í sér að slökkviliðsstjóri fái heimild til álagningar stjórnvaldssekta á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn ákvæðum 23. og 24. gr. laganna, en þau ákvæði taka til brunavarna og brunahönnunar mannvirkja. Meiri hlutinn telur ákvæðið til bóta og leggur áherslu á að gætt sé að meðalhófs við beitingu sektarheimilda og undirstrikar að fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að slökkviliðsstjóri beiti heimildum í hófi og aðeins í alvarlegustu tilvikum. En þetta snýst um það að gerð er úttekt á húsnæði. Viðkomandi eigandi sem er ábyrgur fyrir húsnæðinu þarf að sinna vissum úrbótum er tengist brunavörnum. Hann fær tiltekinn tíma til þess og ef hann hefur ekki sinnt því að þeim tíma liðnum þá er hægt að beita sektum.

En varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, ef hann vildi minna mig á hver hún var. (AIJ: Upplýsingagjöf … ) Já, upplýsingagjöf úr þjóðskrá, þá er það nú bara þannig að ég tel að gagnsæi sé afar mikilvægt og upplýsingagjöf einnig og þetta er góður punktur sem hv. þingmaður bendir á og bara alveg þess virði að koma áleiðis sem ég mun taka til mín og koma til viðkomandi stofnunar. Takk kærlega fyrir.