154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hennar seinna andsvar og tek heils hugar undir að það er afar mikilvægt að ná utan um allan hópinn heildstætt; stöðu þeirra, tekjur og allt sem því tengist, hvar þau búa. Það sem stjórnvöld hafa verið að gera er einmitt að bæta við og kaupa félagslegar íbúðir til handa þeim sem eru tekjulágir og falla undir þessi viðmið sem stjórnvöld setja hverju sinni varðandi greiðslugetu til húsnæðisins þannig að það sé einungis fjórðungur — að mig minnir, ég hef samt sem áður fyrirvara á því — tekna sem standi undir húsnæðiskostnaði. Á næsta ári t.d. hafa stjórnvöld fjármagnað kaup á 600 íbúðum til handa þeim einstaklingum sem falla undir þetta kerfi. Vissulega viljum við að allir íbúar landsins njóti skjóls og hafi þak yfir höfuðið því að það er afar brýnt að fólk finni fyrir öryggi og geti sofið í rúmi með þak yfir höfuðið hverja einustu nótt.