154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga. Nefndarálitið liggur frammi.

Með frumvarpinu er stefnt að því að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins og fækka alvarlegum atvikum með skýrari verkferlum um viðbrögð til hagsbóta fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk og umbótum í framkvæmd öryggis- og gæðamála. Jafnframt verða lagaákvæði um rannsókn alvarlegra atvika gerð ítarlegri, aðkoma sjúklinga og/eða nánustu aðstandenda að rannsókn mála tryggð auk þess sem lagðar eru til breytingar á ferli kvartana til embættis landlæknis.

Lagt er til að í lögum um heilbrigðisþjónustu komi fram að veitendum heilbrigðisþjónustu beri að skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að heilbrigðisstarfsmenn getið staðið við lögbundnar skyldur sínar og að til staðar sé innra eftirlit með starfsemi og þeirri þjónustu sem veitt er. Þá er kveðið á um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rekstraraðila sem veita heilbrigðisþjónustu.

Breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu lúta í fyrsta lagi að því að skilgreina sérstaklega hugtökin óvænt tilvik og alvarleg atvik. Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði nánar á um tilkynningarskyldu heilbrigðisstofnana og rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu til landlæknis þegar alvarleg atvik hafa átt sér stað. Um leið er gert ráð fyrir tilkynningarskyldu þessara aðila til sjúklings eða nánustu aðstandenda. Enn fremur að landlæknir geti tekið alvarleg atvik til rannsóknar að eigin frumkvæði þótt þau hafi ekki verið tilkynnt. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á gildandi ákvæði um rannsókn landlæknis á alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustu, inntaki hennar og málsmeðferð. Fjallað er sérstaklega um rétt sjúklings til upplýsinga um framgang rannsóknar, aðgang að málsgögnum og um rétt hans, og eftir atvikum nánasta aðstandanda, til að koma á framfæri sjónarmiðum við rannsóknina. Í fjórða lagi er lagt til nýtt ákvæði þar sem aðkoma lögreglu að rannsókn á alvarlegum atvikum í heilbrigðisþjónustu er skýrð. Í fimmta lagi er kveðið á um hverjar geti orðið niðurstöður rannsóknar alvarlegra atvika. Er þar fjallað sérstaklega um meðferð skýrslna landlæknis og upplýsinga starfsfólks í heilbrigðisþjónustu, sem óheimilt verði að nota sem sönnunargögn í sakamálum og heimildir landlæknis til endurupptöku máls innan árs frá því að rannsókn lauk. Þá eru í sjötta lagi lagðar til breytingar á 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu um meðferð kvartana til landlæknis er miða að því að auka skilvirkni embættis landlæknis við meðferð kvörtunarmála og stytta málsmeðferðartíma þeirra.

Loks eru lagðar til breytingar á 28. gr. laga um réttindi sjúklinga þar sem kveðið er nánar á um meðferð athugasemda sjúklinga vegna þjónustu eða framkomu heilbrigðisstarfsfólks, sem beina skal til yfirstjórnar heilbrigðisstofnunar eða þeirra sem bera ábyrgð á þjónustunni.

Frumvarpið var lagt fram á 153. löggjafarþingi og er það að meginstefnu óbreytt með þeim undantekningum að gerðar hafa verið breytingar til samræmis við nefndarálit og breytingartillögur meiri hluta velferðarnefndar. Í nefndaráliti sem hér er lagt fram er vísað í umfjöllun um frumvarpið í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarpið frá síðasta þingi. Í ár fjallaði nefndin um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust nokkrar umsagnir.

Í kjölfar þeirrar umfjöllunar vill meiri hluti nefndarinnar árétta eftirfarandi sérstaklega: Nefndin fjallaði um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana en með frumvarpinu lagt til að bætt verði inn í lög um heilbrigðisþjónustu nýrri refsiheimild sem beinist að heilbrigðisstofnunum eða öðrum rekstraraðilum sem veita heilbrigðisþjónustu. Þannig verði skýrt kveðið á um að gera megi heilbrigðisstofnunum sekt fyrir brot gegn almennum hegningarlögum óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn einstakling. Meirihlutinn áréttar að ekki er verið að afnema refsiábyrgð heilbrigðisstarfsmanna. Áfram megi þannig gera ráð fyrir að heilbrigðisstarfsmenn sæti refsiábyrgð í samræmi við almenn hegningarlög.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að líkur eru á að flest alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu megi rekja til margra samverkandi þátta. Þá kom jafnframt fram að sjaldgæft er að einstaka heilbrigðisstarfsmenn séu sóttir til saka vegna alvarlegra atvika og má ætla að ástæða þess sé að alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu megi almennt rekja til atvika þar sem kerfislægir þættir ráða mestu um hvernig fer. Þannig megi ætla að þessi nýja refsiheimild um hlutlæga refsiábyrgð muni leiða til þess að dregið verði úr þrýstingi á að sækja einstaklinga til saka vegna alvarlegra atvika.

Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk geti unnið vinnu sína af öryggi og fagmennsku og með vissu um að það verði ekki dregið til ábyrgðar vegna aðstæðna sem það getur ekki borið ábyrgð á. Ætla megi að rannsókn alvarlegra atvika muni breytast með tilkomu nýs refsiákvæðis og beinast að því að kanna hvort orsök alvarlegs atvika megi rekja til kerfislægs vanda eða margra samverkandi þátta án þess að tilteknum einstaklingi eða einstaklingum sé kennt um. Þó er óhjákvæmilegt að háttsemi einstaka heilbrigðisstarfsmanns sé jafnframt rannsökuð og fer það eftir atvikum hverju sinni.

Þá fjallaði nefndin um rannsóknarhlutverk embættis landlæknis í svokölluðum tilkynningarmálum, þ.e. þegar alvarleg atvik eru tilkynnt landlækni og honum falið að rannsaka þau í samræmi við lög. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði ítarlegar á um tilkynningarskyldu og rannsókn landlæknis á alvarlegum atvikum, m.a. um að landlæknir taki ákvörðun um hvort tilefni sé til rannsóknar á alvarlegu atviki.

Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að eftirlitshlutverk landlæknis með heilbrigðisþjónustu fari ekki saman við hlutverk hans við rannsókn atvika í heilbrigðisþjónustu og rætt um hvort það samrýmist góðum stjórnsýsluháttum að hafa þetta tvíþætta hlutverk á einni og sömu hendi. Var því velt upp hvort betur færi að skipa sérstaka rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að rannsaka tildrög alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu og leiða í ljós orsakir atviksins en ekki að ákvarða sök eða ábyrgð. Markmið slíks fyrirkomulags væri að draga úr líkum á endurteknum atvikum og efla enn frekar öryggismenningu í heilbrigðisþjónustu. Meiri hlutinn tekur undir að ástæða sé til að gaumgæfa þessi sjónarmið og ráðast í ítarlega skoðun á því hvort annað fyrirkomulag kunni að vera betur til þess fallið að tryggja óháða og vandaða málsmeðferð sem stuðlar að bættri öryggismenningu í heilbrigðiskerfinu.

Með vísan til þessa leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu sem felur í sér að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um landlækni og lýðheilsu þess efnis að ráðherra verði falið að skipa starfshóp til að hefja undirbúning að endurskoðun á fyrirkomulagi alvarlegra atvika með það fyrir augum að tryggt verði að rannsókn slíkra atvika sé í höndum óháðs aðila. Starfshópnum væri því falið að leggja mat á hvaða fyrirkomulag við rannsókn á alvarlegum atvikum fellur best að því markmiði að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins. Í því starfi fælist mat á núverandi fyrirkomulagi í samanburði við rannsóknarnefnd eða annað fyrirkomulag og gera tillögu að frekari lagabreytingum er lúta að fyrirkomulagi á rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu. Lagt er til að starfshópurinn verði skipaður fulltrúum notenda í heilbrigðisþjónustu, veitendum heilbrigðisþjónustu, fulltrúum heilbrigðisstétta auk fulltrúa annarra aðila eftir því sem þurfa þykir. Þá er lagt er til að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir lok apríl 2025.

Auk þessa eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta nefndarinnar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Rannveig Lilja Sigurgeirsdóttir, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Jóhann Páll Jóhannsson og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.