154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[22:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er sammála því í grundvallaratriðum að það þurfi að haga málum þannig að þeir sem aka um á rafmagnsbílum taki þátt í þeim kostnaði sem til fellur við vegakerfið og annað. Mér finnst hins vegar ótækt að vera að leggja auknar álögur á heimilin þegar heildarpakkinn liggur ekki fyrir, ef svo má að orði komast. Við vitum í raun og veru ekkert hvað gerist hjá hinum bílunum, það á að útfæra það einhvern tímann síðar í vetur. Við vitum ekkert nákvæmlega hver sú útfærsla er. Mér finnst algerlega ótækt að vera að efna hér til skattahækkana eða aukinna álaga á heimili með svona litlum fyrirvara þegar við vitum ekki hvernig heildarmyndin mun líta út og því get ég ekki stutt þetta mál.