154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:09]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kemur á þskj. 803, nefndaráliti frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, þá undirrita ég það með fyrirvara sem ég tel rétt að gera örstutta grein fyrir hér. Áður en ég kem að honum er kannski ágætt að rifja upp af þessu tilefni að þegar sú pólitíska ákvörðun var tekin fyrir rúmum áratug að Ísland gerðist aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir þá var alveg ljóst að stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því hvaða hagsmunir væru undir fyrir Ísland í loftslagsmálum og einnig fyrir þær atvinnugreinar sem hér eru reknar. Vorum við þá reyndar allsendis ómeðvituð um þann mikla vöxt sem yrði í ferðaþjónustu og flugrekstri eins og raun ber vitni síðastliðinn áratug. Aðildin að ETS er Íslandi bæði hagfelld og skynsamleg og hefur reynst okkur vel. Eins og fram hefur komið þá falla 40% losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi hér á landi undir viðskiptakerfið og viðskiptakerfið er þannig samansett að það dreifir byrðunum, notar markaðsmekanismana til að dreifa byrðunum og setja gjald á losunarheimildir þannig að það þrýsti á nýsköpun, nýtingu grænnar orku og á endanum, að sjálfsögðu, á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það eru sem sagt loftslagsvænar aðgerðir að vera aðili að viðskiptakerfinu og er það í fullu samræmi við þau markmið Íslands sem flestir skrifa undir, að það þurfi að draga úr losun með stórfelldum hætti á næstu sex árum eða svo ef hér eigi að vera einhver von til þess að ná svokölluðu kolefnishlutleysi innan 14, 15 ára.

Það er líka gaman að benda á það, frú forseti, að með þessu kerfi er farin sú ágæta leið, fyrningarleið, sem við jafnaðarfólk í Samfylkingunni þekkjum vel og höfum talað fyrir áratugum saman. Það er nefnilega þannig að fyrst er sett þak á eitthvað sem á að gera. Í þessu tilviki er það losun. Í öðrum tilvikum sem við þekkjum í fiskveiðistjórnarkerfinu er það t.d. þak á aflaheimildir, svokallaðan kvóta, og þannig verða til verðmæti eins og við þekkjum vel. Til að byrja með geta stjórnvöld afhent þessa kvóta, sem eru auðvitað mjög verðmætir eins og á við um losunarkvótana, gjaldfrjálst eins og hefur verið gert. En síðan hefst fyrningin, þ.e. að fyrirtæki og atvinnurekstur þurfa að greiða eðlilegt gjald fyrir heimildirnar, enda eru þær ígildi auðlinda. Við þekkjum því þessa leið ágætlega og að sjálfsögðu er þetta leið sem Evrópusambandið hefur valið, enda er hún bæði skynsamleg og góð og nær árangri eins og dæmin sýna. Hún byggist, eins og hér hefur margoft komið fram, á mengunarbótareglunni, einni af grundvallarreglum umhverfisréttarins og einni af grundvallarundirstöðum allra þeirra aðgerða sem ráðist er í til þess að eiga við loftslagsvandann og reyna með öllum aðferðum að koma í veg fyrir hamfarahlýnun.

Að efni þessa frumvarps og þess sem hér stendur í nefndaráliti meiri hlutans sem ég undirrita með fyrirvara, eins og fram hefur komið, þá verður samt að koma fram við þessa umræðu að þetta mál staldraði ekki lengi við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Meðvituð vorum við þingmennirnir í nefndinni um mikilvægi þess að afgreiða málið en hins vegar verður að segjast eins og er að þessi vinnubrögð eru ekki ákjósanleg. Þau auka hættuna á mistökum, eins og við þekkjum, og eru hreinlega ekki til fyrirmyndar af hálfu framkvæmdarvaldsins eða þess ráðuneytis sem hér á í hlut. Við hv. þingmenn lendum allt of oft í því að þurfa að afgreiða stórmál, mál er varða mikla hagsmuni, með þessari skyndimeðferð. Það eru ekki góð vinnubrögð og við verðum að reyna að skipuleggja þingstörfin með þeim hætti að ráðuneytin skili hér inn stórmálum sem þessum með hæfilegum fyrirvara en ekki þegar allt er komið í eindaga.

En þegar það gerist er líka mikilvægt að bregðast rétt við þegar svona miklir hagsmunir eru undir. Ég held að allir geri sér grein fyrir því hversu miklir þeir eru, alveg burt séð frá því hvort okkur líkar vel við Evrópusambandið sem fyrirbæri eða teljum ETS- eða EES-samstarfið af hinu góða. Mér þætti ágætt að þeir þingmenn eins og sá er hér talaði á undan mér, sem mér heyrist bara vilja út úr þessu öllu saman, myndu kannski gera grein fyrir því hvaða áhrif það hefði á efnahagslíf á Íslandi og atvinnustarfsemi yfir höfuð, þ.m.t. flugrekstur. Eins og fram hefur komið þá hafa flugfélögin, þessi tvö stóru, lagst á sveif með yfirvöldum og eru jákvæð gagnvart því að afgreiða málið með þessum hætti. Það skiptir vissulega máli að við hlustum á hagsmunaaðila þó að þeir eigi auðvitað ekki að stýra för á löggjafarsamkomu Íslendinga. En við þurfum að sjálfsögðu að hlusta á þá og við vitum, það liggur auðvitað fyrir og þarf ekki að fara yfir það hér, hversu stóran þátt ferðaþjónustan og þ.m.t. flugreksturinn á í útflutningstekjum Íslands og þeim uppgangi sem betur fer hefur orðið hér á síðustu áratugum, þó að eitthvað hafi dregið úr honum og hafði heimsfaraldurinn að sjálfsögðu mikil áhrif þar á.

Við stöndum frammi fyrir því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er stóra verkefnið. Það er það verkefni sem öll ríki heims standa frammi fyrir og með því að gera það innan viðskiptakerfis, eins og hér er kveðið á um og við erum aðilar að, er verið að auðvelda verkefnið. Það er verið að dreifa byrðunum og auðvelda verkefnið og nýta til þess verkfæri markaðarins sem duga í þessum efnum. Við höfum reynslu af því og við getum nýtt þau. Það skiptir Ísland stórkostlegu máli að geta nýtt þau með þessum hætti.

Ég þarf ekki að fara yfir niðurstöður aðildarríkjaþings loftslagssamningsins, COP28, sem er nýafstaðið en það ætti öllum að vera ljóst sem fylgst hafa með þeim málum hversu gríðarleg verkefni eru fram undan á Íslandi og um allan heim til þess að draga úr losuninni. Fram hefur komið, bæði í samtölum innan hv. þingnefndar og einnig í almennri umræðu um þetta mál, að mengunarbótareglan valdi því að þau sem nýti flugið og aðra þá samgöngukosti sem menga borgi fyrir. Það liggur auðvitað fyrir og þannig hefur það lengi verið. Við erum t.d. að breyta hér lögum varðandi samgöngur á landi, kílómetragjaldið, til að ná þeim markmiðum. Það er ástæða fyrir því að verkalýðshreyfingin, sem er almennt gert í umræðum um loftslagsmál, talar fyrir því sem kallað er réttlát umskipti. Réttlát umskipti snúast einfaldlega um það að hin tekjulægri í öllum samfélögum beri ekki þyngri byrðar af þeim breytingum sem við þurfum að fara í vegna loftslagsmálanna en aðrir. Og hvað þýðir það? Það þýðir að stjórnmálafólk þarf að beita sér fyrir sanngirni og réttlæti, bæði í gjaldtöku og í tilfærslukerfunum, í skattkerfunum og öðrum þeim kerfum sem við notum til að jafna byrðarnar. Það má alveg með góðum rökum halda því fram að þær aðferðir sem notaðar hafa verið hér á landi, t.d. að niðurgreiða eða falla frá gjöldum á rafmagnsbifreiðar, hafi kannski ekki endilega verið í samræmi við réttlát umskipti vegna þess að eins og fyrir liggur, og ég man ekki nákvæmlega tölurnar, hafa risaupphæðir runnið til þeirra sem hafa hæstar tekjur á Íslandi, hæstu tekjutíundanna. Það liggur fyrir og er enginn sem þrætir fyrir það. Og hvað gerum við þá til að tryggja hin réttlátu umskipti? Við ráðumst auðvitað í alvörualmenningssamgöngur og samgöngur sem henta öllum tekjuhópum, hvort sem það er hátekjufólk eða lágtekjufólk. Þetta er kannski aðeins út fyrir efnið af þessu tilefni en mér fannst samt rétt að það kæmi fram vegna þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram í umræðunni hér fyrr í morgun.

Að fyrirvara mínum. Eins og allir vita er tilgangur og markmið viðskiptakerfisins með losunarheimildir að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta það með jákvæðum hætti eins og fyrir liggur. Við erum að tala um aðlögun og það er alveg rétt sem hér hefur fram komið að það er verið að laga að regluverki Evrópusambandsins og stjórnvöld hafa samið um aðlögun til 1. janúar 2027. Ég gæti alveg staðið hér og haldið því fram að það ætti ekki að vera nein aðlögun, að það ætti bara að fara beint í þetta, en ég tel það óskynsamlegt. Ég tel skynsamlegt að nýta þessa aðlögun og gera það með þessum hætti en þá er það minn skilningur að þeirri aðlögun ljúki 1. janúar 2027. Það er aðlögunin. Það er ekki loforð um framhald heldur lok aðlögunar. Og vegna þess sem hér hefur komið fram, og reyndar oft áður, um það að sæta niðurstöðum eða sæta einhverju sem kemur í gegnum EES-samninginn og frá Evrópusambandinu til okkar hér á Alþingi Íslendinga, þá vitum við öll að ef við hefðum pólitískan áhuga á því að hafa alvöruáhrif á það sem gerist innan Evrópusambandsins myndum við taka ákvörðun um það að eiga sæti við borðið. Þá værum við með í stefnumótuninni frá upphafi og tækjum þátt í því að koma hagsmunum Íslands rækilega á framfæri við borðið. En við erum innan EES og það þýðir að við komum seinna til skjalanna og stundum, eins og hér var gert fyrr á þessu ári, í rauninni bara á elleftu stundu með neyðarkall til formanns framkvæmdastjórnar ESB frá hæstv. forsætisráðherra um að það yrði að taka tillit til sérstöðu Íslands sem eyju í Norður-Atlantshafi þar sem flugrekstur skiptir mjög miklu máli. Það var gert. Það er kannski ekki nógu mikið rætt um það að það var gert. Sérstöðu Íslands var sýndur skilningur með þessari aðlögun. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram og ég ítreka það að ég styð málið og við þingmenn Samfylkingarinnar styðjum afgreiðslu þessa máls. Það hefði verið betra að hafa rýmri tíma og fara á dýptina í þessari umræðu. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd tókst samt að vinna málið allsæmilega og hingað erum við komin. Hagsmunaaðilar eru að banka upp á með að þetta mál verði klárað og ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að ef við samþykkjum ekki þetta mál og þessa aðlögun þá erum við á verri stað 1. janúar 2024 en við verðum 31. desember 2023.