154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir þau sjónarmið þingmannsins að ríkisstjórnin hafi ekki verið að gæta hagsmuna Íslands innan EES eins og hefði kannski þurft. Þess vegna varð þessi redding á elleftu stundu, ef svo má segja, á fundi Ursulu von der Leyen og Katrínar Jakobsdóttur fyrr á þessu ári. Ég get því alveg tekið undir það að hagsmunagæslunni hafi ekki verið sinnt eins og þyrfti og það sýnir líka flýtinn á þessu máli og hversu seint það kemur inn. Hins vegar er verið að ræða hér um samkeppnishæfni að óbreyttum forsendum. Ég geri ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að aðlögunin feli m.a. í sér að laga sig að breyttum forsendum sem taka við 2027. En ég er hrædd um að ég sé ósammála hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni um það að við getum núna komið inn og sagt við Evrópusambandið: Við viljum sömu stöðu og ystu svæði ríkja innan Evrópusambandsins, af því að ég tel og held að það hefði þurft að koma fram miklu fyrr í ferlinu og einnig er ekkert endilega víst að á það verði hlustað nú eða fyrr vegna þess að við sitjum ekki við borðið. Við verðum einhvern veginn að fara að taka það alvarlega að það er munur á því að vera innan Evrópska efnahagssvæðisins og að vera aðildarríki ESB. Það að vera í EES fylgja mikil gæði og tryggir hagsmuni okkar á margan hátt. En það þýðir einfaldlega að við erum að taka við ákvörðunum, lagabreytingum og gerðum frá Evrópusambandinu sem við getum ekki haft áhrif á fyrr en, að mínu áliti, of seint í ferlinu.