154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:48]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mesta erindisleysa íslenskrar utanríkisþjónustu, sagði hv. þingmaður. Ég vil nú meina að það sé ekki rétt. Ég held að íslensk utanríkisþjónusta hafi staðið sig gríðarlega vel í þessu máli um þessar undanþágur sem fengust til að tryggja íslenska hagsmuni, sem eru gríðarlegir í fluginu eins og hv. þingmaður þekkir, reyndar hvergi meiri í flugrekstri í heiminum, eða a.m.k. í hinum vestræna heimi, miðað við landsframleiðslu. Ofan á þetta byggjum við síðan alla ferðaþjónustuna. Mér finnst því svolítið stóryrt að tala um mestu erindisleysu íslenskrar utanríkisþjónustu í tengslum við þetta mál. Þegar við erum að tala um EES-samninginn og íslenska flugið í dag þá verðum við hluti af Open Skies yfir Atlantshafið árið 2011. Evrópusambandið og Norður-Ameríka, Kanada, Bandaríkin og Evrópa, sömdu um Open Skies árið 2009 þannig að það væri hægt að fljúga hvert sem er þar á milli. Við verðum hluti af þessu árið 2011. Þetta er það sem bjó til, að ég hygg, þetta gríðarlega flug sem fór af stað á þessum tíma. WOW air byggðist upp úr þessu og flugfloti Icelandair stækkaði mikið og allur flugrekstur til allra þessara borga í Bandaríkjunum kom til vegna þessa. Þetta er flókið mál og ég er enn þá að vinna að skýrslubeiðni um það til að reyna að fá eitthvað frá stjórnsýslunni um hvernig þetta fór. Mér finnst líka subbukarla-eitthvað í Evrópu ekki vera alveg eðlileg nálgun. Flugfélögin eru með mjög skýrar umsagnir. Við sitjum báðir hv. þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd, fengum til okkar umsagnaraðila og umsagnir eru skýrar, bæði hjá Play og Icelandair, um mikilvægi þess að þetta sé klárað. Nú er hlutverkið það að ná einhverju um hvernig framhaldið verður. Ég hefði gjarnan viljað að Alþjóðaflugmálastofnunarleiðin um CORSIA hefði verið nálgunin en við getum farið í það í framhaldinu.