154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að halda áfram í tengslum við skipaflutninga og ræða hér umsögn sem Juris lögmannsstofa sendi fyrir hönd PCC á Bakka, PCC Bakki Silicon hf., eins og það heitir formlega. Þetta er mjög athyglisverð umsögn og ég held að óhætt sé að segja að þessi vinkill málsins hafi fengið litla athygli áður en þessi umsögn barst en hún fjallar í raun um tilteknar tímabundnar undanþágur frá ETS vegna eyríkja og hér segir, með leyfi forseta, þar sem verið er að lýsa regluverkinu, að það „ætti að leggja sérstaka áherslu á að varðveita aðgengi að slíkum svæðum og skilvirkan tengimöguleika með sjóflutningum.“ Og er þá verið að ræða um þessi ystu svæði eins og þau eru skilgreind sem m.a. Malta, Kýpur, Kanaríeyjar og fleiri falla undir. Nú ætla ég að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna hér til umsagnarinnar þar sem ég gríp niður í landfræðilega legu Íslands. Þar segir:

„Í fyrrnefndri umsögn PCC Bakka í samráðsgátt stjórnvalda“ — sem lögð var fram af fyrirtækinu á fyrri stigum — „kemur m.a. fram að ef framkvæmdur er samanburður á stöðu PCC Bakka og stöðu annarra fyrirtækja á meginlandi Evrópu er ljóst að svigrúm fyrirtækja í aðildarríkjum ESB, til að aðlagast viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, er mun meira, t.d. þar sem í Evrópu geta fyrirtæki valið milli fleiri flutningaleiða.“

Er þar átt við járnbrautarlestir, fljótasiglingar og annað þess háttar. Og svo heldur hér áfram, með leyfi forseta:

„Þannig eru íslensk útflutningsfyrirtæki á landsbyggðinni, m.a. í stóriðju, nær algerlega háð því að flytja vörur sínar með flutningaskipum á meðan önnur fyrirtæki á meginlandi Evrópu geta t.d. flutt vörur sínar með flutningalestum. Því er ljóst að staðan er ekki jöfn og fyrirséð að flutningskostnaður slíkra innlendra fyrirtækja mun hlutfallslega aukast meira.“

Er þar átt við meira en samkeppnisaðilar þeirra. Áfram heldur:

„Á það sama við um önnur fyrirtæki hér á landi, t.d. sjávarútvegsfyrirtæki og önnur framleiðslufyrirtæki, en framangreint leiðir til þess að samkeppnishæfni þeirra mun minnka á alþjóðlegum mörkuðum.“

Þetta er myndin sem er teiknuð upp í umsögn PCC á Bakka, að nógu slæmt sé þetta nú fyrir en þetta muni hafa sérstaklega neikvæð áhrif á fyrirtæki á landsbyggðinni. Hér er síðan áfram sagt í umsögninni, og þar eru tekin dæmi um þær fjarlægðir sem vörur þessa tiltekna fyrirtækis eru fluttar og borið saman við þessar eyjar sem þegar eru skilgreindar sem ystu svæði samkvæmt regluverkinu, þetta eru eyjarnar sem ég nefndi hér áðan, og segir hér, með leyfi forseta:

„Skipafélögum sem starfrækja vöruflutninga á milli þessara eyja er ekki skylt að skila inn losunarheimildum að því er varðar losun sem losuð var fyrir 31. desember 2030 úr sjóferðum milli þessara hafna. Íslensk skipafélög þurfa hins vegar að öllu óbreyttu að gera það þegar t.d. siglt er frá Reykjavík til Húsavíkur.“

Getur þetta verið markmiðið með þessu regluverki, að ráðast sérstaklega að iðnfyrirtækjum á landsbyggðinni, sem eru undirorpin því að nýta skipasiglingar? Það hefur ekki komið fram svar í neinum gögnum er það varðar en ég trúi því hreinlega ekki að íslenskir ráðamenn hafi ákveðið með galopin augun að nýta ekki þær undanþágur sem regluverkið býður upp á og þetta sé niðurstaðan. Nógu slæmt er það í grunninn en það er sérstaklega mótdrægt iðnfyrirtækjum á landsbyggðinni.

Virðulegur forseti. Svona upp á samhengi hlutanna, ég á hér aðeins eftir af þessari umsögn, þá vil ég biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá þar sem ég mun halda áfram umfjöllun minni um áhrif á sjóflutninga.