154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Stjórnarmeirihlutinn leggur fram fjárlög sem Seðlabankinn, allir helstu greinendur og meira að segja hún sjálf kalla hlutlaus. Það þýðir að ríkisstjórnin er ekki og ætlar sér ekki að taka þátt í glímunni við verðbólguna. Hún lætur Seðlabankanum það einum eftir með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir heimilin í landinu. Það að vera hlutlaus er ekki góð pólitík, allra síst þegar fólk gegnir valdamestu embættum landsins. Maður spyr sig um hlutverk ríkisstjórnar sem velur það að sitja hjá. Sú ríkisstjórn er þegar búin að gefast upp. Landsmenn eiga hins vegar annað og betra skilið en ríkisstjórn sem ákveður að taka sæti á varamannabekknum og vonar í lengstu lög að hún verði ekki kölluð inn á.

Virðulegi forseti. Við þurfum ríkisstjórn sem spilar leikinn. Ég segi nei við þessu frumvarpi.