154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

aðbúnaður og þjónusta við fólk með fötlun vegna ástandsins í Grindavík.

[17:06]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnina og mun að sjálfsögðu skoða þetta. Ég vil bara nefna það að þegar þessir atburðir gerðust í nóvember var auðvitað fyrst um neyðarviðbragð að ræða þar sem fundið var húsnæði fyrir fólk. Það var gert strax, sem betur fer, og virtust ekki vera vankantar á því. Þar sem hv. þingmaður ræðir um leigutorg þá eru það væntanlega íbúðir og íverustaðir sem skortir þar, íbúðir sem henta fötluðu fólki. Það þarf þá endilega að skoða það í samvinnu við sveitarfélagið að reyna að bæta úr þessu, kannski ekki síst út frá þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir.