154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

háskólar.

24. mál
[17:51]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta ágæta frumvarp sem hér er lagt fram. Þetta er að hluta til sprottið upp úr Bologna-samstarfinu sem, eins og kemur fram í greinargerðinni, hefur verið við lýði í aldarfjórðung eða svo. Það er má segja svolítið sjálfsprottið samstarfsverkefni evrópskra háskóla og er eitt af þessum farsælu verkefnum sem Evrópusamruninn og Evrópusamstarfið hefur leitt af sér og við höfum blessunarlega tekið fullan þátt í frá upphafi. Þetta hefur auðvitað gjörbreytt íslensku háskólasamfélagi, að ég tel, til hins betra. Íslenskir háskólar hafa þurft að mæta kröfum sem eru gerðar til allra háskóla á þessu evrópska háskólasvæði og það hefur leitt til umfangsmikils gæðastarfs og gæðaferla innan háskólanna á Íslandi. Sem stjórnandi við háskóla sem hefur komið að stjórnun háskóla og farið í gegnum svona gæðamatskerfi í tveimur löndum þá fullyrði ég að starf íslenskra skóla er prýðilegt í evrópskum samanburði. Ég er líka ánægður að sjá þetta örnám sem hér er lagt til og stungið upp á að færa í orð í lögum. Ég held að það sé mjög góð viðbót. 30 eininga meistaranámið sem hefur verið við lýði og er núna verið að einhverju leyti að kveðja vegna þess að það er kannski ekki alveg í samræmi við Bologna, hefur mætt ákveðinni þörf í íslensku menntakerfi sem hugsanlega má þá mæta með þessu örnámi sem þarna er verið að tala um.

Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytt nám á háskólastigi og sú umræða sem fór fram hér áðan var ágæt og ég þakka hv. þingmanni sem kom með andsvar við framsögu ráðherra fyrir að vekja máls á því fjölbreytta framboði sem íslenskir háskólar hugsanlega geta staðið að. Það verður örugglega enginn hörgull á því að fá góðar hugmyndir innan deilda háskólanna að svona örnámi ef ég þekki starf þeirra rétt. Þetta getur verið ákaflega jákvæð viðbót við háskólanám fólks og þetta getur líka veitt fólki sjálfstraust til þess að koma í fullt háskólanám. Ekki er heldur vanþörf á því að hvetja karlmenn til að stunda háskólanám í auknum mæli, sem kemur reyndar fram í greinargerðinni með þessu máli. Ég hef reyndar sjálfur nýtt mér svona örnám við evrópskan háskóla og fullyrði að það styrkti mig í þeim störfum sem ég sinnti á þeim tíma, ákaflega gagnlegt. Í rauninni er sá tími að fólk fari í háskólanám beint eftir framhaldsskóla og síðan ekki söguna meir einfaldlega liðinn. Kröfur dagsins í dag eru þær að fólk sitji ekki á einhverju 40 ára gömlu háskólaprófi endalaust. Það þarf að uppfæra og margir eiga tvo til þrjá starfsferla yfir starfsævina og fara í háskóla til að skipta um vettvang eftir því sem áhugasviðið breytist eftir því sem fram í sækir.

Ég var einmitt núna í hádeginu að tala við konu sem er fullorðin, er raunar komin á eftirlaun, en er í fullu námi í þýðingafræði í Háskóla Íslands til að nýta tungumálakunnáttu sína betur og nýta hana til að kynna okkur hinum annan menningarheim heldur en hinn engilsaxneska sem við höfum svo greiðan aðgang að. Einnig þekki ég það vel, t.d. í þeim skóla sem ég að jafnaði starfa, Háskólanum á Bifröst, að þar er meðalaldur grunnnema 36 ár. Það er augljóst að þar er um að ræða fólk sem er að huga að því að uppfæra sig og jafnvel skipta um starfsvettvang. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi hæstv. ráðherra hér í dag og hlakka til að sjá hvernig því farnast í meðförum þingsins.