154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu.

558. mál
[18:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma þessari þingsályktunartillögu hér inn í þingið. Ég held, eins og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir sagði, að við í utanríkismálanefnd munum taka hana til góðrar yfirferðar. Fríverslunarsamningar eins og þessi eru, eins og stundum er bent á, oft pólitískt mikilvægari heldur en endilega viðskiptalega. Mér skilst reyndar að það sé hægt að fá vín frá Moldóvu núna í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, því miður ekki í öllum búðum enn þá en ég veit að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru tilbúnir að tala um það. En það er gott að við séum að styðja við ríki sem hefur þurft að taka á sig stóran hluta af þeim flóttamönnum sem komið hafa frá Úkraínu. Það er líka mikilvægt að við séum að fella niður tolla frá þessum löndum og gera þeim þannig kleift að koma með vörur sínar hingað til lands. Það er eitthvað sem við þurfum að hugsa í víðara samhengi.

Fyrst hæstv. utanríkisráðherra er orðinn duglegur að henda inn fríverslunarsamningum þá langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að endilega koma með alvörufríverslun við Úkraínu aftur eins og við gerðum fyrsta árið eftir að stríðið braust út og finna samstöðu í sínum flokk á bak við það að við höldum áfram að styðja við bakið á Úkraínumönnum, sérstaklega nú þegar við vitum að athyglin er farin að beinast að öðrum vígstöðvum þegar kemur að stuðningi við Úkraínu.