154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að senda hæstv. matvælaráðherra okkar bestu kveðjur frá þingflokki Miðflokksins og óska henni skjóts bata í sínum veikindum. Ég verð jafnframt að biðja hæstv. virðulegan forseta um að hlutast til um það fyrir okkur þingmenn að það verði upplýst með skýrum hætti með hvaða hætti þessi risastóru mál sem hæstv. matvælaráðherra hefur á sinni könnu núna og hefur greinilega ætlað sér að koma inn í þingið á vormánuðum. Þá er ég að tala um heildarendurskoðun sjávarútvegslöggjafarinnar og mál er varða lagareldi, svo þau séu nefnd sérstaklega, með hvaða hætti þau munu vinnast áfram og hvort takturinn verði bara á þeim nótum sem lagt var upp með, því að ef svo er þá er auðvitað veruleg vinna fram undan fyrir okkur þingmenn hvað það varðar að greina þau mál og gagnrýna eftir atvikum. En ef ríkisstjórnin — og nú er auðvitað annar ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, í ráðuneyti matvælaráðherra um sinn. Okkur mun vinnast mikill tími til að sinna öðrum verkefnum ef það liggur fljótt fyrir að þessi tvö verkefni sem ég nefni sérstaklega verða sett til hliðar, ofan í skúffu. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að eiga orðastað við starfandi matvælaráðherra um það með hvaða hætti þessi mál verða unnin hér í þinginu á vormánuðum, komi þau fram, því að eins og oft vill verða þá er í mörg horn að líta. Grindavíkurmál munu kalla á mikla athygli á næstunni og það væri okkur öllum til gagns ef sem fyrst lægi fyrir hvort færibandið heldur sínum takti og gangi eða hvort stigið verður til baka, sérstaklega hvað varðar grundvallarlagasetningu um heildarendurskoðun laga um sjávarútveg.