154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hér eins og í svo mörgum öðrum málum stendur yfir störukeppni milli stjórnarflokkanna. Ég held að það þurfi að skoða þessa umræðu hér í dag í því ljósi, og í því ljósi að öll spjót standa á ríkisstjórninni vegna stöðunnar í orkumálum. Niðurstaðan í störukeppni er að ekkert gerist á meðan og almenningur fær aftur og aftur að heyra þá skýringu að hann verði bara að skilja að hér starfi saman þrír ólíkir flokkar. Þröng staða blasir við heimilunum næstu árin þar sem þau eru afgangsstærð að raforku, leyfisveitingaferli nýrra virkjana er komið út í skurð og markmið Íslands í orkuskiptum eru að litlu sem engu orðin. Þessi sundraða ríkisstjórn sýnir okkur aftur og aftur að hún getur ekki tekið þær ákvarðanir sem þarf að taka. Þess vegna verður Alþingi að sameinast og tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum næga raforku. Það verður að hraða leyfisveitingum fyrir nýjum virkjunum sem tilbúnar eru til framkvæmda svo að við komumst sem fyrst út úr þessari orkukrísu sem hér ríkir. Næsta ríkisstjórn verður svo að gera það að forgangsmáli að hraða leyfisveitingum og taka ferli rammaáætlunar til endurskoðunar svo að hún virki sem skyldi. Tryggja verður að næg orka sé til staðar í nýtingarflokki til að knýja orkuskipti og til að mæta orkueftirspurn framtíðarinnar. Næsta ríkisstjórn þarf að skerpa á óljósum markmiðum í orkuskiptum Íslands og tryggja að fyrir liggi tímasett og fjármögnuð orkuskiptaáætlun. Tækifærin blasa við en kyrrstaða horfir á okkur þar til að ný ríkisstjórn tekur við. Umræðurnar hér í dag breyta litlu því að ríkisstjórn sem ekki getur komið sér saman um stefnu getur auðvitað ekki farið út í aðgerðir.