154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:33]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Við lifum á skrýtnum tímum, nokkurn veginn þannig að morgundagurinn er óljós. Eldsumbrot á Reykjanesskaga eru staðreynd sem ekki verður horft fram hjá og það vekur upp öflugri umræðu um orkuöryggi landsins. Þessa stöðu er ekki að finna í orkustefnu landsins sem nær til 2050 en þó segir þar, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýnin endurspeglar sjálfbæra þróun og hversu mikilvægu hlutverki orkan gegnir í lífi landsmanna allra. Þar kemur fram samspil orkunýtingar, umhverfisverndar og efnahagslegra þátta, og mikilvægi þess að þessir þættir vinni saman í góðu jafnvægi.“

Þessi staðreynd lifir og við verðum að halda í hana. Orkuskortur til framtíðar er líka staðreynd. Hvernig ætlum við að bregðast við honum? Hann hefur reyndar verið viðvarandi á Vestfjörðum síðan fyrst var kveikt ljós þar og enn þá orna Vestfirðingar sér við olíukynta húshitun allt of margar vikur á ári með tilheyrandi áhrifum á loftslagið. Það er neyðarástand á Vestfjörðum. Það er ekki út af gróðurhúsasjónarmiðum, eins og hér var talað um áðan. Fólk ætti að kynna sér hvernig staðan er umhverfis landið. Mér finnst alveg með ólíkindum að heyra svona orð héðan úr pontu.

Orkuauðlindir landsins eru sameiginleg eign þjóðar og flutningsleiðir raforku einnig, en landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi raforku til síns heima. Það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa. Stefna núverandi stjórnvalda er að styrkja byggð í öllu landinu, jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Þar undir fellur m.a. það verkefni að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli.

Virðulegi forseti. Það er morgunljóst að við þurfum að fara að sinna þessum málefnum af fullri alvöru. Útbúa þarf sérstaka rammaáætlun sem nær bæði til minni og stærri virkjunarkosta. Það þarf raunhæfa áætlun í uppbyggingu flutningskerfis en einnig þarf að þora að tala um raunhæfa virkjunarkosti. Við þurfum að huga að uppbyggingu og leggja fram lausnir til frambúðar. Þá fyrst getum við treyst raforkuöryggi um allt land.