154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt. Ég hjó eftir því áðan í umræðunni þegar ráðherra fór að tala um rammaáætlun að hann sagði að við í stjórnarandstöðunni hefðum setið hjá. Það er orkuskortur og auðvitað okkur öllum að kenna að það er bara allt í vitleysu hjá ríkisstjórninni og hún getur ekki framleitt orku, af því að við sátum hjá við rammaáætlun. Nei. Kannski er það okkur að kenna og við erum kannski ástæðan fyrir því að dreifikerfið hefur ekki verið að virka á síðustu sex árum. Nei, það getur ekki verið, við vorum ekki í stjórn. Þið ráðið þessu. Hvers vegna í ósköpunum eruð þið ekki búin að taka á þessu, laga dreifikerfið og koma þannig fram að það sé eitthvað virkjað? Það er vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um þetta. Þeir vísa hver á annan og svo þegar þeir eru búnir að gefast upp á því vísa þeir á okkur í stjórnarandstöðunni, að þetta sé allt okkur að kenna. Það er alveg með ólíkindum hvernig við förum með okkar orku. Við erum að nota orku í að grafa eftir mynt, sem er auðvitað fáránlegt. Við erum líka búin að fá milliliði í að selja orku. Það er auðvitað auðveldara — nei, það er bara til þess að láta einhverja aðra græða fyrir að gera ekki neitt. Þú þarft eiginlega bara eina tölvu og tengingu og þá tikka inn peningar af því að þú ert farinn að selja orku. Þetta er verk ríkisstjórnarinnar.

Það sem er kannski furðulegast af öllu saman er að öll þessi hreina græna orka okkar — hvað gerum við við hana? Jú, við erum farin að selja hana til sóða erlendis sem brenna kjarnorku, brenna kolum. (Gripið fram í: Nei …)(Gripið fram í.) Jú, jú, jú. Það kemur bara til af því að við erum með græna orku. Þeir eru ekkert með græna orku og það er skrifuð á okkur kjarnorka, kolabrennsla og alls konar annað sem er bara alls ekki okkar. Við eigum bara að fara að viðurkenna það að við erum með allt niður um okkur í raforkumálum, eða réttara sagt ekki við í stjórnarandstöðunni heldur ríkisstjórnin.