154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér er talað og fullyrt um orkuskort. Það verður að gera smáathugasemd við það. Það að það sé meiri eftirspurn eftir orku þýðir ekkert endilega að það sé orkuskortur, a.m.k. ekki fyrir alla. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Í fyrsta lagi skulum við hafa það algerlega á hreinu að það er skylda stjórnvalda að tryggja heimilum landsins örugga orku á sanngjörnu verði. Í öðru lagi framleiðum við miklu, miklu meira af orku en heimilin þurfa. Það er sem sagt til miklu meira en næg orka fyrir heimilin. Við erum hvergi nálægt því að geta sagt að það sé orkuskortur gagnvart nokkru sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Sama á við um grunninnviði landsins. Það er enginn orkuskortur. En hvað með alla hina sem vilja orku? Er það ekki staðan í rauninni, að það eru einhverjir aðrir sem vilja orku og vilja fá hana eins ódýrt og við getum útvegað hana? Þar er vissulega orkuskortur. Sá orkuskortur gerir það að verkum að verð bara hækkar og hækkar. Er það ekki bara gott? Er ekki fínt að við fáum hærra verð fyrir orkuna sem við framleiðum? Þýðir þessi gríðarlega eftirspurn eftir orkunni okkar að hún sé í rauninni bara ódýr fyrir stóriðjuna? Er það ekki bara gott að rukka hærra gjald fyrir gróðastarfsemi með auðlindir okkar? Stjórnvöld eiga að tryggja heimilum orku á sanngjörnu verði. Allir hinir borga fullt verð, takk kærlega fyrir. Enginn afsláttur af orku til stóriðju, enginn afsláttur af orku í rafmyntargröft, ekki einu sinni þar. Sanngjarnt verð til heimila og smærri fyrirtækja.

Svo talað sé aðeins um orkuvandamálið á Vestfjörðum þá er þar vissulega orkuvandamál en það er dreifivandamál, vandamál með dreifingu orkunnar. Í einni af fyrstu nefndunum sem ég sat í þegar ég kom hingað sem varaþingmaður 2014 eða 2015, eitthvað svoleiðis, þá var ég á fundi þar sem Landsnet kom og bókstaflega vældi í stjórnvöldum að koma með áætlun um að byggja upp betra dreifikerfi, sérstaklega einmitt fyrir Vestfirði. Það eru tíu ár síðan og ekkert hefur breyst. Hverjum er það að kenna? Líklega stjórnvöldum sem ráða þessu, sömu stjórnvöldum og eru núna að væla yfir því að það sé orkuskortur. Fáránlegt.