154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að byrja á því að skammast aðeins í hæstv. ráðherra. Það er auðvitað algerlega fráleitt að ráðherrann komi hér og kenni stjórnarandstöðunni um það að mál sem lagt var fram af hæstv. ráðherra þann 10. nóvember, Náttúrufræðistofnun, sem varðar sameiningar, hafi ekki verið afgreitt fyrir áramót vegna stjórnarandstöðunnar. Heyrðu, það er nú bara þannig, virðulegur forseti, að það er búið að taka málið fyrir á tveimur fundum í umhverfis- og samgöngunefnd. Og hver er formaður þar? Hver var settur framsögumaður? Samflokksmaður hæstv. ráðherra, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson. Og svo var málið sent til umsagnar. Það er stjórnarmeirihlutinn sem hefur fullt dagskrárvald í nefndinni og virðulegur forseti stýrir hér dagskrá þingfunda. Að halda því fram að það mál sem kom úr umsögn 2. desember hafi ekki klárast vegna þess að stjórnarandstaðan ýtti ekki nægjanlega mikið á eftir því, þetta er einhver satíra sem maður er að verða hér vitni að. En jæja, látum þetta nú gott heita, nóg um það í bili.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra. Nú er talað um að þegar þessi sameining er um garð gengin verði til þrjár öflugar stofnanir í stað átta, eins og segir í greinargerðinni. Það sem vekur athygli mína er í 6. kafla greinargerðarinnar, Mat á áhrifum, þar sem í rauninni er flaggað kostnaði svona til að byrja með en það verði engin bein fjárhagsleg hagræðing af þessu. Nú er ég ekki að neinu marki að leggjast gegn sameiningu þessara stofnana en það kemur á óvart að það skapist ekkert svigrúm (Forseti hringir.) til fjárhagslegrar hagræðingar með sameiningu átta stofnanna og mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra það í stuttu máli fyrir mér ef hægt er.