154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

útflutningsleki til Rússlands.

529. mál
[15:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er alvörumál sem hv. þingmaður ber hér upp og þá á ég við að það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvaða áhrif viðskiptaþvinganir hafa og hvort einhver brögð eru að því hjá samstarfsþjóðum um viðskiptaþvinganir að þær séu hunsaðar eða reynt að komast í kringum slíkar aðgerðir. Eins og komið var inn á hefur borið á umfjöllun um að Rússar beiti ýmsum leiðum til að komast yfir vörur sem sæta útflutningsbanni til Rússlands í gegnum milliliði í öðrum ríkjum og þá helst í fyrrum Sovétríkjunum Mið-Asíu og Kákasus. Þó verð ég að segja, miðað við það sem fram er komið, að það er erfitt að meta umfang þess útflutningsleka til Rússlands sem þarna er rætt um. Nágrannaríki okkar á Norðurlöndunum og í Eystrasalti hafa þó orðið vör við aukinn útflutning til Mið-Asíu og Kákasus, ekki síst á hátæknivörum samhliða samdrætti í útflutningi til Rússlands. Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslusviði Skattsins á Íslandi er ekkert sem bendir til sambærilegs leka frá Íslandi til Rússlands um þessi ríki. Líkleg skýring á þessum mun á Íslandi og nágrannaríkjum okkar er annars vegar landfræðileg staðsetning og svo hins vegar umfangsmeiri iðnaðarframleiðsla í nágrannaríkjunum.

Í elleftu umferð þvingunaraðgerða, sem samþykktar voru á vettvangi Evrópusambandsins 23. júní síðastliðinn og voru innleiddar hér á landi í kjölfarið, var sérstaklega tekið á útflutningsleka til Rússlands. Þannig var heimilt að banna útflutning til ákveðinna þriðju ríkja og flutning um þau ríki þar sem sérstaklega mikil hætta er talin á sniðgöngu. Í kjölfarið hefur sérlegur erindreki Evrópusambandsins í þvingunaraðgerðum heimsótt og átt samtöl við stjórnvöld í þriðju ríkjum. Tilgangur þessara samtala er að gera þeim ljóst að ef ekki verði komið í veg fyrir útflutningsleka á evrópskum vörum sem sæta þvingunaraðgerðum til Rússlands í gegnum ríkin muni þau hafna á lista yfir ríki sem sæta útflutningsbanni á slíkum vörum. Þessu til viðbótar standa yfir viðræður á vettvangi Evrópusambandsins um tólftu umferð þvingunaraðgerða og er þar m.a. rætt um frekari aðgerðir til að sporna við sniðgöngu.

Varðandi útflutning frá Íslandi til fyrrum Sovétlýðvelda, þessara í Mið-Asíu og Kákasus, þá sjáum við að útflutningstölurnar eru mjög breytilegar frá einu ári til þess næsta. Það má til að mynda nefna að útflutningur til Armeníu það sem af er ári er fjórfaldur samanborið við árið 2022, þá erum við að tala um það sem af er síðasta ári, en rúmlega tífalt lægri en árið 2021, þannig að þetta er mjög sveiflukennt og verður að horfa á magnið hverju sinni og einnig samsetningu sendinga. Ef árin 2022 og 2023 eru borin saman þá hefur útflutningur aukist til Aserbaídsjan, Kirgistan, Kasakstan og Tadsjikistan auk Armeníu. Hins vegar hefur töluvert dregið úr útflutningi til Georgíu og enginn útflutningur hefur átt sér stað til Úsbekistan það sem af er ári. Þá hefur enginn útflutningur átt sér stað til Túrkmenistan síðastliðin ár. Ef árin 2021 og 2023 eru borin saman þá hefur dregið úr útflutningi til allra þessara ríkja fyrir utan Tadsjikistan og Kirgistan auk Aserbaídsjan.

Þegar menn reyna að rýna í þessar tölur og spyrja sig: Bíddu, í hverju hefur aukningin fólgist? Hvað er þarna á ferðinni? Hvaða útflutningur er að hætta? o.s.frv., þá má hafa það í huga að helstu útflutningsvörur til þessara ríkja eru fiskur og aðrar sjávarafurðir auk matvæla sem ekki sæta takmörkunum eða þvingunaraðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það eru helstu útflutningsvörurnar. Og vegna þess að ég nefndi áðan að nágrannaríki okkar og eins Eystrasaltsríkin hefðu tekið eftir aukningu í hátæknivörum þá hafa engar hátæknivörur verið fluttar til þessara ríkja frá Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslusviði Skattsins hafa engar vörur verið fluttar til þessara ríkja sem sæta útflutningsbanni til Rússlands samkvæmt gildandi þvingunaraðgerðum.