154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

niðurfelling persónuafsláttar lífeyris- og eftirlaunaþega sem búsettir eru erlendis.

[10:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að leggja til þessa lagabreytingu var fyrst og fremst sú að umrædd heimild var óskilvirk leið við að tryggja það markmið sem býr að baki persónuafslætti og það rann ýmist í ríkissjóð erlendra ríkja eða fól í sér tvöfalda ívilnun fyrir afmarkaðan hóp lífeyrisþega.

Markmiðið með persónuívilnunum eins og persónuafslætti er auðvitað að tryggja sanngjarna skattbyrði í samræmi við getu manns til að borga skatt. Þær ívilnanir taka mið af kostnaði við framfærslu og eru almennt eingöngu í boði í því landi þar sem maður er búsettur með fulla skattskyldu af þeirri ástæðu að það land hefur eitt heildarsýn yfir stöðu, heildartekjur, kostnað, skuldir, fjölskyldusamsetningu o.s.frv. Ástæðan fyrir því að þetta var lagt til er einfaldlega sú að markmiðið með þessum persónuívilnunum er þetta og persónuafslátturinn skilaði sér ekki til lífeyrisþegans heldur rann í ríkissjóð erlendra ríkja. Staðan í dag er sú að eftirlauna- og lífeyrisþegar fá notið persónuívilnana, ýmist frá búseturíkinu eða því ríki sem tekjurnar koma frá þannig að það væri ekki ástæða til að hafa opna viðbótarheimild til persónuafsláttar í lögunum, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hversu óskilvirkur hann var. En samkvæmt flestum tvísköttunarsamningum Íslands þá á Ísland eitt rétt á að skattleggja lífeyri frá opinberum lífeyrissjóðum. Erlenda ríkið má ekki skattleggja en því ber samt sem áður að veita persónuívilnanir þannig að maður sem er með hluta af tekjum sínum frá opinberum lífeyrissjóði á Íslandi og aðrar tekjur annars staðar frá getur notið tvöfaldrar ívilnunar á við þann sem ekki er með tekjur frá opinberum sjóðum, þ.e. fullan persónuafslátt frá Íslandi og frá búseturíkinu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál þurfi að skoða nánar vegna þess að væntanlega er markmiðið ekki að sumir fái tvöfalda ívilnun á meðan aðrir fá einfalda. Og ef það eru dæmi um einhverja misnotkun á þessu þá hljótum við að vilja fá það upp á borðið og ræða það til hlítar og gera eitthvað í því.