154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staða áforma um stuðning við Grindvíkinga.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og vil fyrst segja að ég geti ekki tekið undir það að íbúar Grindavíkur séu litlu nær um hvað taki við. Ég er þeirrar skoðunar og hef fundið það í viðbrögðum íbúa Grindavíkur að það loforð og sú skuldbinding um að ríkið væri að taka óvissuna í fangið og finna út úr því sameiginlega, að við værum að segja að 99% landsmanna ætluðu að aðstoða eina prósentið sem hefur misst sitt húsnæði, ýmist tímabundið eða varanlega, og alger óvissa um það hvernig það fer, séu gríðarlega verðmæt skilaboð til fólksins.

Það eru ýmsar leiðir eða útfærslur sem koma til greina. Við tókum ákvörðun hér saman um að manna þverpólitíska samráðsnefnd til að fara yfir kosti og galla mismunandi leiða og ég vonast til þess að við getum haldið fyrsta fund jafnvel á morgun til að fara yfir það. Það hefur gríðarlega mikil vinna verið unnin nú þegar í ráðuneytinu en við fundum það líka og heyrðum það, bæði í aðdraganda þess að við tilkynntum þetta og í framhaldinu, að fólk er á mismunandi stað gagnvart því hversu raunhæf vonin er, hverjar líkurnar eru á því að þau muni yfir höfuð vilja snúa aftur heim verði það mögulegt o.s.frv. Þess vegna þarf að vega og meta kosti og galla mismunandi útfærslna, einmitt líka með tilliti til þess, af því að hv. þingmaður spyr um þessi eignatengsl — það eru nefnilega líka kostir og gallar við hverja leið í því. Þá þurfum við dálítið sameiginlega að komast að því, í samtali við fólkið sjálft líka, hvað er raunhæft, hvað vegur þyngst (Forseti hringir.) og þá þurfum við bara einfaldlega að vera viðbúin því að sumt kann að kosta meira, annað kann að viðhalda óvissu. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða nánar og með þeim.