154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Heilbrigðiskerfið okkar er að stórum hluta í einkarekstri sem byggir á samningum á milli rekstraraðila og Sjúkratrygginga. En hvorki er tryggt að markmið greiðsluþátttökukerfisins né markmið laga um að tryggja sjúkratryggðum aðstoð óháð efnahag náist. Það sáum við svo skýrt þegar samningar við sérgreinalækna náðust ekki í fjögur og hálft ár, frá árinu 2019 þar til í fyrrasumar. Á meðan samningsleysinu stóð lögðu veitendur þjónustunnar á aukagjöld sem ekki töldu inn í greiðsluþátttökukerfið. Þetta þýddi að fólkið sem þurfti á þjónustu lækna að halda borgaði háar upphæðir úr eigin vasa. Jafnvel þótt samningar hafi að mestu náðst síðasta sumar eru enn ýmsir lausir endar sem eru kostnaðarsamir fyrir fólk. Almenningur á Íslandi vill ekki heilbrigðiskerfi sem byggir á því að fólk þurfi að taka upp veskið og greiða háar upphæðir fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ekkert í lögum um sjúkratryggingar tryggir sjúklinga gagnvart slíkum kostnaði. Það er nauðsynlegt að breyta lögunum til að koma í veg fyrir að það ástand geti ríkt árum saman að einungis þeir sem hafa ráð á að greiða umtalsverðar upphæðir utan greiðsluþátttökukerfisins geti nýtt sér heilbrigðisþjónustu í einkarekstri.

Forseti. Dæmi um ójöfnuð í heilsu hér á landi birtist of víða. Í minni fjölskyldu er maður sem var tjáð að líklega fengi hann ekki ökuskírteini sitt endurnýjað nema fá nýja augasteina. Hann gat beðið í eitt til tvö ár eftir aðgerð á Landspítalanum eða þegið tilboð læknis í einkarekstri um að fá aðgerðina eftir tvo daga ef hann gæti borgað 500–700 þús. kr. Heilbrigðiskerfið virkar ekki sem skyldi ef ekki tekst að semja um þjónustu í einkarekstri þannig að hún falli að öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins sem reknir eru af opinberum aðilum.